Reykjavík keppir í sjálfbærri uppbyggingu

Reykjavík er ein 15 borga sem tekur þátt í samkeppninni.
Reykjavík er ein 15 borga sem tekur þátt í samkeppninni. mbl.is/Eggert

Reykjavíkurborg hefur uppfyllt skilyrði um þátttöku í alþjóðlegri samkeppni um sjálfbæra uppbyggingu á vegum borgarsamtakanna C40 sem eru samtök yfir 90 stærstu borga veraldar og Climate KIC sem eru evrópsk samtök um baráttu gegn loftslagsbreytingum. 

Þátttakan felst í því að borgin hefur boðið fram þrjár lóðir sem þverfagleg teymi arkitekta, verkfræðinga, fjárfesta og frumkvöðla munu keppa um til að skapa og þróa byggingar eða verkefni með bestu sjálfbæru lausnum sem völ er á. Verkefnin eiga hvort tveggja að skila fjárhagslegum og samfélagslegum ávinningi.

Hverjar eru lóðirnar?

Um er að ræða lóðir við Malarhöfða, sem er fyrrverandi iðnaðarlóð sem verður eins konar inngangur að nýju uppbyggingarsvæði á Ártúnshöfða. Þessi lóð er sögð búa yfir mörgum kostum en einn þeirra mun vera nálægð við fyrirhugaða Borgarlínu og Elliðaárdal.

Lóð við Lágmúla sem staðsett er á lághitasvæði í miðri borg og þykir það gera hana einstaka. Lóðin er einnig við fyrirhugaða leið Borgarlínu. Á svæðinu mun verða blönduð byggð íbúða, verslunar, þjónustu og atvinnustarfsemi.

Þá lóð við Frakkastíg 1 sem er að mörgu leyti talin andlit borgarinnar frá sjávarsíðunni norðan megin. Á reitnum eru tækifæri til að flétta saman eldri byggð við nýja á framúrstefnulegan hátt.

15 stórar borgir taka þátt

Bakhjarlar verkefnisins og stuðningsaðilar eru borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo, Michael R. Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York-borgar, auk Bloomberg Philanthropies, Children’s Investmen Fund Foundation (CIFF) og danski sjóðurinn Realdania sem styður við umhverfismál á vettvangi arkitektúrs og skipulags.

Fjöldi stórra borga og höfuðborga taka þátt í samkeppninni en þær eru Auckland á Nýja-Sjálandi, Höfðaborg í Suður-Afríku, Houston, San Francisco og Chicago í Bandaríkjunum, Líma í Perú, Madríd á Spáni, Mílanó á Ítalíu, Mexíkóborg í Mexíkó, Ósló í Noregi, París í Frakklandi, Quito í Ekvador, Rio de Janeiro og Salvador í Brasilíu ásamt Reykjavík.

Hver þessara 15 borga býður fram lóðir sem keppnisteymin móta framtíðarsýn fyrir. Borgin, ásamt C40 og Climate KIC, velur síðan þau verkefni sem best standast kröfur um nýsköpun á sviði sjálfbærni, framúrskarandi arkitektúrs og samfélagslegs ávinnings. Að lokum fá teymin sem eiga valdar tillögur tækifæri til að fjárfesta í lóðinni og framkvæma verkið.

Markmið samkeppninnar er að hvetja til nýsköpunar á sviði umhverfisvænna bygginga eða mannvirkja í borgum sem geta verið fyrirmyndir í lausnum á sviði umhverfisgæða, sjálfbærni og minna kolefnisfótspors sem fer vel saman við markmið C40, Climate KIC og þeirra borga sem taka þátt í samkeppninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert