Nýr verktaki að 72 íbúða fjölbýli

Húsið er skammt frá knattspyrnuhöllinni Kórnum.
Húsið er skammt frá knattspyrnuhöllinni Kórnum. Kort/map.is

„Það eru þrjár vikur síðan nýr verktaki kom að þessu,“ segir Friðjón Rúnar Sigurðsson, forsvarsmaður LFC Invest, sem stendur að byggingu 72 íbúða fjölbýlishúss við Vallakór 6 í Kópavogi. SSHús ehf., sem var helmingshluthafi í LFC Invest, hefur sagt sig frá verkinu vegna rekstrarerfiðleika.

Friðjón segir áætlað að fjögurra mánaða vinna sé eftir við húsið, sem verður eitt af stærri fjölbýlishúsum á landinu. Allar innréttingar séu komnar til landsins og þær hafi þegar verið settar upp í sumar íbúðirnar.

Hann bendir á að alltaf verði einhver töf á framkvæmdum þegar skipt sé um verktaka enda þurfi að skipuleggja vinnuna áður en menn haldi áfram á fullum afköstum. Alltaf hafi þó einhverjir starfsmenn verið að störfum í húsinu en mesta vinnan sem eftir er sé innandyra. Hann segir að búið sé að mála og flísaleggja allar íbúðirnar.

Friðjón segir að seinkun við afhendingu íbúðanna sé ekki mikil, ef einhver, en þegar hefur um helmingur þeirra verið seldur. Hann segir að íbúðirnar hafi verið teknar úr sölu þegar þetta kom upp en gerir ráð fyrir að þær fari í sölu eftir áramótin. „Við viljum sýna að þetta sé komið á fulla ferð aftur áður en þetta fer á sölu.“ Hann segir að engar hækkanir á verði íbúðanna séu fyrirhugaðar og þau tilboð sem samþykkt hafi verið áður en skipt var um verktaka standi.

Friðjón segir að búið sé að ræða við flesta þá sem keypt hafi íbúðir í húsinu auk þess sem formleg tilkynning verið send út þegar nýr verktaki sé kominn á fullt. „Ef þetta kemur einhverjum mjög illa þá er hægt að kaupa fólk út aftur,“ segir hann við mbl.is. Verðandi eigendur muni fá þær íbúðir sem þeir hafi fest sér og enginn þeirra tapi á þessu peningum.

Uppfært: Í fréttinni stóð upphaflega að nýi verktakinn sé fyrirtækið Gólfmúr. Friðjón segir að það sé ekki rétt, en ekki hefur fengist svar við hver nýi verktakinn er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert