„Þetta er algjör draumur“

Fritz ætlar að eyrnamerkja styrkinn listinni.
Fritz ætlar að eyrnamerkja styrkinn listinni.

Úthlutað var úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar listmálara og Ástu Eiríksdóttur eiginkonu hans við athöfn í Listasafni Íslands í dag og hlutu tveir ungir myndlistarmenn styrki, þau Fritz Hendrik Berndsen og Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir. Styrknum var úthlutað á fæðingardegi  Svavars en 108 ár eru frá fæðingu hans.

Sjóðurinn var stofnaður árið 1993, fyrir 24 árum, og hlutu listamennirnir kr. 500.000 hvor. Í reglugerð um sjóðinn segir að styrkinn skuli veita „ungum og efnilegum myndlistarmönnum“.

Fritz Hendrik Berndsen fæddist árið 1993 og lauk BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2016. Síðan var hann í átta mánaða starfsnámi hjá Agli Sæbjörnssyni, myndlistarmanni í Berlín. Hann hefur haldið fjórar einkasýningar á Íslandi og tekið þátt í allnokkrum samsýningum.

„Það er ótrúlega gott klapp á bakið að fá þennan styrk,“ segir Fritz. „Þetta er ekki styrkur fyrir ákveðið verkefni heldur viðurkenning og hvatning sem er gríðarlega gaman að fá.“

Þegar Fritz er spurður að því hvort hann muni nota styrkinn til að fjármagna sína daglegu vinnu í myndlistinni, eða hvort hann renni í eitthvert ákveðið verkefni, svarar hann að líklega hjálpi hann sér í þeim verkefnum sem hann vinnur að. „Ég er í dagvinnu til að framfleyta mér en reyni að eyrnamerkja styrkinn listinni, sem er ótrúlega gaman að geta gert.“

Þegar spurt er um næstu skref í myndlistinni segir hann fram undan vera samsýningu með fyrrverandi bekkjarsystkinum og þá fer hann til annars myndlistarmanns sem er í vetur í gestavinnustofu í Hollandi en þeir hyggjast vinna saman og setja upp sýningu í framhaldinu. „Svo vinn ég sjálfur áfram í eigin verkum og styrkurinn hjálpar. Þetta er algjör draumur,“ segir hann.

Katrín segir styrknum fylgja mikill styrkur og hvatning.
Katrín segir styrknum fylgja mikill styrkur og hvatning.

Katrín Inga er fædd árið 1982. Hún útskrifaðist frá LHÍ árið 2008, úr listfræði við Háskóla Íslands 2012 og þau lauk hún meistaranámi í myndlist við School of Visual Arts í New York árið 2014. Katrín Inga hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum, heima og erlendis, og nú í haust hefur myndbandsverk eftir hana blasað við gestum sem eiga leið um hinn vinsæla High Line-garð í New York og hefur það vakið verðskuldaða athygli.

„Þessum styrk fylgir rosa mikill styrkur og hvatning,“ segir Katrín Inga. „Bæði sögulega séð og peningalega. Hvort tveggja er mikilvægt. Styrkir sem þessi eru gríðarlega mikilvægir fyrir listamenn. Myndlistin þrífst, þróast og dafnar með aðstoð sem þessari, annars væri íslensk myndlist ekki komin jafnlangt á heimsmælikvarða og raun ber vitni.“

Hún segir að hér á landi vanti markað með listaverk eins og þekkist á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum, fáir kaupa eða safna listaverkum. „Hvað þá þegar fólk gerir gjörningatengda list eins og ég, þá verða ekki til hlutir sem auðvelt er að setja fjármagn í. Það er gríðarlega mikill heiður og stór og kraftmikil viðurkenning að fá þennan styrk, sem aðstoðar í glímunni við að skapa myndlist á hverjum degi og takast á við sjálfið og samfélagið.

Það eru ekki margir svona styrkir sem standa til boða hér á landi og hver þeirra er mjög mikilvægur fyrir myndlistina,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert