Gagnrýnir vinnubrögð lögreglu

Hrafnkell er harðorður í garð lögreglunnar.
Hrafnkell er harðorður í garð lögreglunnar. Eggert Jóhannesson

„Eftir að lögreglan hafði hæðst að mér fyrir að „vanmeta“ stöðuna keyrir bíllinn í burtu og skilur stúlkuna eftir, enda höfðu þeir engan áhuga á að hjálpa henni,“ segir Hrafnkell Ívarsson, dyravörður til sex ára, í stöðuuppfærslu á facebooksíðu sinni. Þar gagnrýnir hann vinnubrögð lögreglu sem hann varð vitni að í starfi sínu á aðfaranótt laugardags.

Dyravörðum skemmtistaðarins hafði skömmu áður verið tilkynnt um stúlku í annarlegu ástandi. Hrafnkell mat stöðuna svo að óska þyrfti eftir aðstoð lögreglu, enda væri ástand stúlkunnar ólíkt hefðbundinni ölvun.

Hann beið lengi eftir aðstoð lögreglu áður en hann náði að veifa til lögreglubíls sem átti leið hjá. „Úr framsæti bílsins voru þær búnar að ákvarða að ekki væri um lyf að ræða, byggt á því að stúlkan væri í símanum sínum. Þetta voru allt vonlausar tilraunir við að nota símann en henni gekk illa að jafnvel aflæsa símanum, þrátt fyrir að það væri fingrafaraskanni á honum,“ segir Hrafnkell í færslunni, og að lögreglan hafi sagt stúlkuna verða að finna sér leigubíl og keyrt í burtu.

Skömmu síðar keyrði framhjá annar lögreglubíll sem veitti stúlkunni athygli og lögreglumaður gaf sig á tal við hana. Hrafnkell sinnti hefðbundum verkefnum við lokun staðarins en þegar þeim var lokið sá hann lögregluna senda stúlkuna í burtu, þrátt fyrir að hún þyrfti að styðja sig við húsveggi til að halda jafnvægi á göngunni.

Að lokum segir Hrafnkell vinnubrögð lögreglu ekki ásættanleg og að nú geti hann aðeins vonað að stúlkan hafi komist í öruggt skjól. Facebookfærslu Hrafnkels má lesa í heild sinni hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert