Aðalmeðferð í máli Sveins Gesti hefst í dag

Sveinn Gestur við þingfestingu málsins.
Sveinn Gestur við þingfestingu málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Sveini Gesti Tryggvasyni hefst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en Sveinn er ákærður fyrir stófellda líkamsárás í Mosfellsdal 7. júní sl. Sá sem varð fyrir árásinni hét Arnar Jónsson Aspar, en hann lést í kjölfar hennar.

Gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin standi í fjóra daga.

Arnar er sagður hafa kafnað vegna mikillar minnkunar á öndunarhæfni sem olli ban­vænni stöðukæf­ingu sem má rekja til ein­kenna æs­ing­sóráðs vegna þvingaðrar fram­beygðrar stöðu sem Sveinn hélt Arn­ari í.

Sveinn er ekki ákærður fyrir manndráp, en í ákærunni leiðir áverkalýsingin til lýsingar á banameini Arnars sem er sögð köfnun vegnar þeirrar stöðu sem Arnar var þvingaður í af Sveini.

Sveinn er sagður hafa haldið hönd­um Arn­ars fyr­ir aft­an bak þar sem Arn­ar lá á mag­an­um og tekið hann hálstaki og slegið hann ít­rekað í and­lit og höfuð með kreppt­um hnefa. Eru af­leiðing­ar þessar árás­ar tald­ar hafa valdið and­láti Arn­ars.

Sveinn hef­ur setið í gæslu­v­arðhaldi frá því að árás­in átti sér stað.

Er Sveinn ákærður með vís­an til 2. máls­grein­ar 218. grein­ar al­mennra hegn­ing­ar­laga, en hún tek­ur á stór­felldu lík­ams- eða heilsutjóni sem skap­ast af árás og ef brotaþoli hlýt­ur bana af.

„Nú hlýst stór­fellt lík­ams- eða heilsutjón af árás eða brot er sér­stak­lega hættu­legt vegna þeirr­ar aðferðar, þ.á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sæt­ir lík­ams­árás, hlýt­ur bana af at­lögu, og varðar brot þá fang­elsi allt að 16 árum.]“ 

Í einka­kröfu í mál­inu fara ­for­eldr­ar Arn­ars  fram á sam­tals 9 millj­ón­ir í miska­bæt­ur auk út­far­ar­kostnaðar. Fyr­ir hönd 15 ára dótt­ur Arn­ars er farið fram á 5 millj­ón­ir í miska­bæt­ur auk missis fram­fær­anda til 18 ára ald­urs. Fyr­ir hönd ný­fæddr­ar dótt­ur Arn­ars er farið fram á rúm­lega 18 millj­ón­ir og unn­usta og barn­s­móðir Arn­ars fer fram á tæp­lega 30 millj­ón­ir í miska­bæt­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert