Bíllinn gjörónýtur eftir slysið

Frá slysstað í dag.
Frá slysstað í dag. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Búið er að opna fyrir umferð á nýjan leik eftir alvarlegt umferðaslys sem varð á gatnamótum Grafningsvegar og Biskupstungnabrautar.

Fyrst um sinn var lokað fyrir alla umferð en eftir það hleypti lögreglan á Suðurlandi bílum inn í hollum. Um klukkan 14.30 var opnað fyrir umferð að fullu en slysið varð um ellefuleytið í morgun.

Að sögn lögreglunnar er ökumaður fólksbílsins sá sem slasaðist alvarlega í slysinu. Hann var einn í bílnum og þurfti að nota klippur til að ná honum út. Bíllinn er gjörónýtur.

Tveir voru í sendibílnum og eru þeir einnig slasaðir en ekki eins mikið, að sögn lögreglunnar. Sá bíll er mikið skemmdur.

Allir þeir sem slösuðust eru Íslendingar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert