Siglufjarðarvegur lokaður vegna snjóflóðs

Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. mbl.is/Sigurður Ægisson

Siglufjarðarvegur er lokaður um óákveðinn tíma vegna snjóflóðs sem féll skammt vestan Strákaganga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Snjókoma er á Norðausturlandi og þungskýjað.

Bent er á að gul viðvörun gildir frá Vestfjörðum og yfir allt Norðurlandið. „Reikna má með 15-20 m/s með ofankomu og skafrenningi.  Mjög blint verður við þessar aðstæður og einnig á láglendi. Þótt ekki snjói á sunnanverðum Vestfjörðum verður þar skafrenningur sem og á  Snæfellsnesi og í Borgarfirði. Jaðar hríðarbakkans er skarpur,“ segir í tilkynningunni.

Það er hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Suðurlandi.

Hálka er á flestum leiðum á Vesturlandi og eitthvað um skafrenning. Flughálka er á Útnesvegi.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja og éljagangur og skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingur er á Hrafnseyrarheiði en Dynjandisheiði ófær eins er ófært úr Bjarnarfirði og norður í Gjögur.

Vetrarfærð er á Norðurlandi, snjóþekja eða hálka víðast hvar. Éljagangur eða snjókoma mjög víða. Þæfingsfærð er á Dettifossvegi.

Á Austur- og Suðausturlandi er víða hálka eða snjóþekja en greiðfært frá Norðfirði suður að Höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert