Stormviðvörun á morgun

Spáin fyrir norðanvert landið er slæm.
Spáin fyrir norðanvert landið er slæm. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Útlit er fyrir norðaustan hvassviðri eða storm með snjókomu eða éljum um landið norðanvert frá þriðjudegi til föstudags. Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með þróun veðurspáa og viðvarana, segir í athugasemd á vef Veðurstofu Íslands.

„Vaxandi norðan- og norðaustanátt í dag með snjókomu eða éljum, einkum á Norðurlandi. Hvassviðri eða stormur seint í kvöld og í nótt með snjókomu eða éljum og víða skafrenningi og lélegu skyggni, einkum um landið norðvestanvert. Dregur heldur úr vindi og ofankomu norðan- og vestanlands þegar líður á morgundaginn, en bætir í vind á Suðausturlandi með éljum. Áframhaldandi hvöss norðaustanátt fram að helgi með éljagangi og köldu veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spá fyrir næstu daga

Vaxandi norðan- og norðaustanátt með snjókomu eða éljum, en lengst af þurrt og bjart sunnan til, 15-23 norðan og vestan til í nótt, en hægari um landið suðaustanvert þar til á morgun. Norðaustan 10-18 annað kvöld og él, en léttir til sunnanlands. Heldur hvassara suðaustan til. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á þriðjudag:
Norðan- og norðaustan 15-23 m/s, en mun hægari um landið suðaustanvert. Snjókoma eða él um landið N- og A-vert, en yfirleitt þurrt og bjart suðvestan til. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum. 

Á miðvikudag og fimmtudag:
Norðan og norðaustan hvassviðri og él, en bjart að mestu sunnan og vestanlands. Kalt í veðri. 

Á föstudag:
Norðanátt og él, dregur úr vindi og ofankomu vestan til þegar líður á daginn, en bætir í vind allra austast. Áfram kalt í veðri. 

Á laugardag:
Útlit fyrir norðvestanátt með dálitlum éljum við norðausturströndina, en hægari breytileg átt og víða léttskýjað annars. Talsvert frost, einkum inn til landsins. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir sunnan- og síðar suðvestanátt með snjókomu eða slyddu. Minnkandi frost og hlánar við suðvesturströndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert