Telur hægt að útiloka sekt Thomasar

Thomas Møller Olsen leiddur fyrir dómara í ágúst. Hann var …
Thomas Møller Olsen leiddur fyrir dómara í ágúst. Hann var ekki viðstaddur málflutninginn í dag. mbl.is/Eggert

Munnlegur málflutningur fór í dag fram í máli Thomasar Møller Olsen gegn íslenska ríkinu, þar sem verjandi Thomasar fór fram á að dómkvaddur matsmaður, „hæfur og óvilhallur“, yrði fenginn til að leggja mat á hvar Birnu Brjánsdóttur var komið fyrir, með það fyrir augum að útiloka sekt hans. Thomas var af héraðsdómi í lok september dæmdur í 19 ára fangelsi fyrir að hafa myrt Birnu.

Lögmaður Thomasar, Páll Rúnar M. Kristjánsson, sagði fyrir dómi að á milli klukkan sjö og ellefu, morguninn eftir að Birna hvarf, hafi hann, samkvæmt rannsókn lögreglu og dómi héraðsdóms ekið um 140 kílómetra. Páll Rúnar sagði fyrir dómi í dag að ef það yrði niðurstaða sérfræðings að Birnu hafi verið komið fyrir í sjó utan þeirrar vegalengdar sem Thomas á að hafa getað ekið miðað við rannsókn málsins, „þá útloki það sekt sóknaraðila“.

Hann benti líka á að mjög fáir staðir á suðurströndinni komi til greina þar sem hægt væri á smábíl að koma manneskju fyrir í sjó. Víðast væru mörg hundruð metrar að sjó og stórgrýtt landslag sem væri mjög erfitt yfirferðar. Ef rannsókn á hafstraumum, vindum eða landslagi leiddi í ljós að Birnu hefði verið komið fyrir í sjó þar sem Thomas hefði ekki getað farið, þá leiddi það til þess að hann væri saklaus.

Þrjár spurningar

Fyrir dómi kom fram að Páll Rúnar vill fyrir hönd umbjóðanda síns fá matsmann til að reikna út hvar Birna hafi verið sett í sjóinn. Til vara vill hann vita hvort það sé niðurstaða matsmanns að Birna hafi verið sett í sjó austan eða vestan við þann stað sem hún fannst. Til þrautavara er það lagt fyrir matsmann að meta hversu líklegt sé að Birnu hafi verið komið fyrir í sjó fyrir austan eða vestan þann stað sem hún fannst. Í þessu samhengi benti hann á að staðirnir, þar sem gott aðgengi væri að sjó, austan megin við Selvogsvita (þar sem hún fannst), væru mjög fáir. Hann sagði enn fremur að þeir væru engir vestan Selvogsvita, nema alveg við Grindavík.

Ber að rannsaka vettvang

Hann gagnrýndi að vettvangurinn væri ófundinn og því órannsakaður. Lögum samkvæmt bæri að rannsaka vettvang í sakamálarannsókn. Þess má geta að Thomas hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu en fyrir dómi sagði Páll Rúnar að umbjóðandi hans hefði aldrei farið um það svæði sem honum er gefið að sök að hafa farið með Birnu.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari benti á að skortur á rannsókn á …
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari benti á að skortur á rannsókn á vettvangi glæpsins byggði á því að sakborningur hefði neitað að tjá sig um ferðir sínar daginn örlagaríka. Þórður Arnar Þórðarson

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari benti á í sínum málflutningi að það sem stæði í vegi fyrir að vettvangurinn væri rannsakaður væri sú staðreynd að Thomas hefði ekkert vilja segja til um ferðir sínar umræddan tíma að öðru leyti en að hann hefði hitt ónefndan mann. „Hann vill ekki bjarga sér undan fangelsi í 16 ár með því að upplýsa það.“

Óvissuþættirnir margir

Sigríður benti annars á að ákæruvaldið teldi það hafið yfir allan vafa að Thomas hefði myrt Birnu. Hún sagði að ekki væri ljóst hversu lengi líkið hefði verið í sjónum áður en það fannst og ekki væri hægt að segja um hvernig það hafi rekið í fjöruna. Hún sagði ljóst að ekki væri hægt að svara þeim spurningum sem matsbeiðandi legði fram þannig að svörin myndu breyta sönnunarstöðu í málinu. Óvissuþættirnir væru það margir. Í því samhengi benti hún á að umræddan dag hefði vindur og vindáttir breyst mjög ört í Grindavík. Svar matsmanns yrði alltaf byggt á getgátum.

Sigríður benti á að lögreglumenn hefðu verið fengnir til að keyra þá leið sem Thomas á að hafa keyrt morguninn örlagaríka. Í ljós hefði komið að eftir stæðu 190 óútskýrðir kílómetrar en ekki 140, eins og miðað var við fyrir dómi og við rannsókn málsins.  Auðvelt hefði verið fyrir Thomas að komast um Suðurstrandaveg innan þess kílómetrafjölda, hvort sem umræddur staður væri Óseyrarbrú eða Vogsós. Hún sagði að það væri mat ríkissaksóknara að matsbeiðnin væri óþörf og aðeins til þess fallin að tefja málið og auka við það kostnað – sem mikill væri orðinn. Matið væri óþarft þegar kæmi að sönnunarbyrði í málinu.

Vogsós bara grunnur lækur

Þessu mótmælti Páll Rúnar á þeim forsendum að það breytti engu þó að lögreglumenn hefðu breytt framburði sínum – og vísaði þar til mælinga sem ríkissaksóknari lét lögreglu gera 8. nóvember síðastliðinn. Páll Rúnar sagðist sjálfur hafa mælt leiðina og sú mæling væri alveg jafngild og mæling lögreglu. Hann benti á að gögn úr myndavélum hefðu útlokað að umbjóðandi sinn hefði getað ekið Suðurlandsveginn austur á Reykjanes, eins og Sigríður hafði nefnt í sínum málflutningi. Þá benti hann á að við brúna yfir Vogsós væri bara grunnur lækur, sem ekki gæti skolað líkama til sjávar. Þá væri ekki mögulegt að keyra að sjó í Herdísarvík – sem er annar staður sem nefndur hefur verið – án þess að stórsæi á bílnum.

Uppkvaðning úrskurðar, þar sem afstaða verður tekin til matsbeiðninnar, fer fram innann fárra daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert