„Þeir höfðu keypt gallað hús“

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir einsýnt að Foss hefði …
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir einsýnt að Foss hefði gert endurkröfu á OR, ef farið hefði verið fram á tveggja milljarða króna úrbætur. mbl.is/Árni Sæberg

„Lífeyrissjóðirnir selja húsið ódýrara en samningurinn kveður á um og afsala sér rétti til þeirra tekna sem þeim voru áskyldar í leigusamningi,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, um kaup félagsins á húseignunum á Bæjarhálsi 1. Orkuveitan, sem seldi húsið til Foss, félags í eigu lífeyris- og fjárfestingasjóða, fyrir 5,1 milljarð árið 2013, hefur komist að samkomulagi um að kaupa húsin aftur á 5,6 milljarða. Í millitíðinni hefur komið í ljós að vesturhúsið er mjög mikið skemmt eða jafnvel ónýtt.

Áætlað er að kostnaður við viðgerðir vegna raka og mygluskemmda í húsinu hlaupi á um tveimur milljörðum króna. Bjarni segir að OR hafi selt húsið í góðri trú árið 2013 en síðustu tvö árin hafi verið að koma í ljós hversu viðamiklar skemmdir á húsinu séu.

Hann segir að mönnum hafi brugðið. Við hafi blasað að OR gat ekki lagt í tveggja milljarða króna viðgerðir. Foss hafi heldur ekki haft á því áhuga að leggja í slíkan kostnað við hús sem félagið var nýbúið að kaupa. „Þeir höfðu keypt gallað hús,“ segir Bjarni.

Kvað á um kaupverð í samningi

Spurður hvers vegna OR hafi ákveðið að kaupa húsið nú segir hann að tímasetningin sé aukaatriði. Staðan hafi verið afar flókin og vilji hafi staðið til að leysa hana. OR, sem byggði húsið, hafi að auki leigt það af Fossi með endurkauparétti eftir tíu ár annars vegar og 20 ár hins vegar. Lágmarksleigutími hafi verið tíu ár. Hann segir að í samningnum hafi verið kveðið á um hvernig kaupverð yrði reiknað, ef til þess kæmi að OR nýtti rétt sinn til að kaupa það. Verðgildi hússins skyldi uppreiknað með vísitölu neysluverðs að viðbættu 2,5% einskiptisálagi. Foss og OR hafi nú samþykkt kaupverð sem sé undir því viðmiði, auk þess sem Foss afsali sér framtíðarleigutekjum.

Orkuveita Reykjavíkur. Sá helmingur hússins sem er vinstra megin á …
Orkuveita Reykjavíkur. Sá helmingur hússins sem er vinstra megin á myndinni stendur auður. mbl.is/Hjörtur

Bjarni bendir á að ávöxtun söluandvirðisins frá árinu 2013 hafi verið 331 milljón umfram greiddar leigutekjur. OR hafi greitt 906 milljónir í leigu en ávaxtað söluandvirðið um 1.237 milljónir króna.

Hefðu gert endurkröfu

Bjarni segir að OR hafi farið í viðræðurnar með „sanngirnissjónarmið að leiðarljósi“. Staðan hafi verið vond fyrir alla aðila. Spurður hvort eðlilegt sé að kaupa ónýtt hús á nánast fullu verði svarar Bjarni því til að ef OR hefði gert þá kröfu á Foss að félagið lagfærði húsið hefði kaupandinn, sem þeir leigi af, gert endurkröfu á OR, vegna galla á húsnæðinu. „Er skynsamlegt að fara í nokkurra ára hugsanleg málaferli og láta húsið standa autt, engum til gagns, árum saman?“ spyr hann og lýsir þeirri skoðun sinni að það hefði hvorki verið til hagsbóta fyrir OR né Foss – og kostað mikla fjármuni.

Í ágúst var kynnt svört mynd af ástandi hússins en vesturhúsið svokallaða stendur autt. Fram kom þar að til álita hafi komið að rífa þann helming hússins. Í tilkynningu frá OR kemur fram að nákvæmara mat á ýmsum valkostum standi yfir. Þeim hafi fjölgað frá því í ágúst en engin lending sé komin. Fyrsta skerf hafi verið að fá fullt forræði yfir eignunum.

Erfið leit að hlutlausum manni

Spurður um næsta skref segir Bjarni að leit standi yfir að dómkvöddum matsmanni til að leggja mat á skemmdirnar. Leit að slíkum manni sé tímafrek og erfið í litlu landi, þar sem flestir séu á einhvern hátt tengdir. Hann segir að til greina komi að leita út fyrir landsteina að hlutlausum aðila sem allir aðilar geti sæst á. Nokkur ár geti liðið áður en niðurstaða þess manns liggi fyrir. Eftir þeirri niðurstöðu muni Orkuveitan ekki bíða, heldur hefjast handa við að finna heppilega lausn.

Í tilkynningu frá OR í dag kemur fram að OR muni eftir sem áður standa vörð um hagsmuni fyrirtækisins gagnvart þeim sem að húsbyggingunni komu „með tilliti til hugsanlegra bóta“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert