UNICEF veitir skólum viðurkenningar

Flataskóli í Garðabæ fékk viðurkenningu UNICEF í dag.
Flataskóli í Garðabæ fékk viðurkenningu UNICEF í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í tilefni alþjóðlegs dags barna sem er haldinn hátíðlegur um allan heim fengu fyrstu réttindaskólar UNICEF á Íslandi viðurkenningu, en það eru Flataskóli í Garðabæ og Laugarnesskóli í Reykjavík ásamt frístundaheimilunum Laugaseli og Krakkakoti. Í samstarfi við UNICEF leggja þessir skólar og frístundaheimili Barnasáttmálann til grundvallar í öllu sínu í starfi.

Af því tilefni skrifuðu börn í Flataskóla skilaboð til stjórnvalda sem voru afhent í dag. Þau skilaboð eru meðal annars að: öll börn eiga að fá vernd gegn ofbeldi, öll börn eiga að ganga í skóla og eiga vini og fjölskyldu og að stelpur og strákar eiga jafn mikinn rétt til að tjá sig. Skilaboðunum verður komið til nýrrar ríkisstjórnar þegar hún hefur verið mynduð og vonast börnin til að skilaboðin muni berast til leiðtoga heimsins.

Ævar Þór Benediktsson tók við áskorunum barna í Flataskóla til …
Ævar Þór Benediktsson tók við áskorunum barna í Flataskóla til ráðamanna heimsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi framleiddi myndbönd í tilefni dagsins þar sem nokkur börn tjá sig um það sem skiptir þau máli svo sem hverju þau myndu breyta í heiminum ef þau fengju að ráða og hvað þau myndu gera sem forseti Íslands í einn dag.

Mikilvægt að fullorðnir hlusti meira á börnin

„Börn vita best hvernig er að vera börn og því finnst okkur mikilvægt að fullorðnir hlusti meira á þeirra skoðanir og leyfi þeim að tjá sig. Enda eru það mikilvæg réttindi barna. Þess vegna ákváðum við að búa til þessi myndbönd, til að leyfa börnum að segja sínar skoðanir,“ segir Anna Arnarsdóttir, starfandi formaður Ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.

Ævar Þór Benediktsson í Flataskóla.
Ævar Þór Benediktsson í Flataskóla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagurinn er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gleðst yfir þeim mikla árangri sem náðst hefur við að bæta stöðu barna um allan heim, en minnir um leið á að þrátt fyrir miklar framfarir þá eru réttindi barna víða brotin. Til að mynda býr nú mikill fjöldi barna (eitt af hverjum 12) við meiri óvissu um framtíð sína, heldur en ríkti um framtíð foreldra þeirra þegar þau voru börn.  

Hvað þýðir #börnfáorðið?

Yfirskrift alþjóðlegs átaks UNICEF á alþjóðlegum degi barna er #KidsTakeOver eða #börnfáorðið og eru ýmsar uppákomur skipulagðar um allan heim. Yfir 130 lönd taka þátt á átakinu þar sem börnum er gefinn vettvangur til að tjá sig um þau mál sem brenna á þeim. Tilgangurinn er að minna á að börn eiga mikilvæga rödd og að þau skulu vera þátttakendur í ákvörðunum sem munu móta framtíð þeirra.

Börnin voru stolt af verðlaununum.
Börnin voru stolt af verðlaununum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alþjóðlega munu þekktir leikarar, þjóðarleiðtogar og velgjörðasendiherrar UNICEF um allan heim taka þátt í deginum. Í stuttmynd sem unnin var af UNICEF í samstarfi við David Beckham ræða börn stöðu heimsmála, á Spáni munu börn taka yfir fótboltaleikvang FC Barcelona með Messi og félögum og nýtt tónlistarmyndband við lag söngkonunnar P!nk var frumsýnt svo nokkuð sé nefnt. Auk þess munu leikkonurnar Dafne Keen (Logan) og Isabela Moner (Transformers: the Last Knight), ásamt Nickelodeon stýra samkomu 150 barna í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.

„Markmið #börnfáorðið átaks UNICEF á Íslandi er að minna á það að börn eru mikilvægur hluti af okkar samfélagi og að hlusta eigi á þau, í dag og alla aðra daga. Markmiðið er einnig að vekja athygli á réttindum barna um allan heim og gefa börnum tækifæri til að tjá sig um þau mál sem hafa áhrif á þau og berjast fyrir réttindum sínum og annarra barna,” segir Steinunn Jakobsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, einnig í tilkynningu. 

Nemendur í Laugarnesskóla í Reykjavík.
Nemendur í Laugarnesskóla í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

UNICEF á Íslandi hvetur fjölmiðla, skóla, foreldra og ráðamenn til að gefa börnum orðið á alþjóðlegum degi barna þannig að börn fái tækifæri til að tjá skoðanir sínar og tala fyrir réttindum sínum og annarra barna heima hjá sér, í skólanum og úti í samfélaginu. 

Hægt er að fylgjast með viðburðum og uppákomum hér á landi og um allan heim undir myllumerkjunum #börnfáorðið og #WorldChildrensDay.

Dagurinn er hátíðlegur um allan heim.
Dagurinn er hátíðlegur um allan heim. Ljósmynd/Aðsend
Frá verðlaunaafhendingunni.
Frá verðlaunaafhendingunni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert