Vegum lokað vegna veðurs

Veginum um Súðavíkurhlíð verður lokað á miðnætti.
Veginum um Súðavíkurhlíð verður lokað á miðnætti. Ljósmynd/ Halldór Sveinbjörnsson

Norðanstormur og hríð er víða á Norðurlandi og af þeim sökum er búið að loka veginum um Ólafsfjarðarmúla. Áður hafði Siglufjarðarvegi verið lokað síðdegis en snjóflóð féll á veginn.

Myndarleg hæð yfir Grænlandi beinir norðanátt hingað og veðurfræðingur útskýrir það svo að hnútar í norðanáttinni valdi því að áttin er ekki jöfn yfir landinu. 

Einn svoleiðis hnútur er fyrir norðan Tjörnes og vestan við hann er norðanstormur og hríð,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Sé vefsíða Vegagerðarinnar skoðuð má sjá áðurnefndar lokanir en auk þess kemur fram að veginum um Súðavíkurhlíð verður lokað á miðnætti. Mjög hvasst er á Norðurlandi og á Vestfjörðum en vindhraði fer til að mynda í 30 m/s rétt vestan við Siglufjörð.

„Þetta er fyrsta alvöruhríðarveður vetrarins og það kemur mönnum oft á óvart að það er svo lélegt skyggni í hríð. Ef vindurinn er sterkur og það snjóar með er ekkert skyggni og þá er ómögulegt að keyra,“ segir Teitur.

Hann segir að spár geri ráð fyrir áframhaldandi leiðindaveðri næstu daga. „Miðað við nýjustu spá mun veðrið ná hámarki á fimmtudag og föstudag. Þetta er erfitt ferðaveður og getur valdið fólki óþægindum,“ segður veðurfræðingurinn.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert