Stefna á að koma 80% vefsíðna í loftið í dag

Svona lítur síða Samfylkingarinnar út í dag, en hún er …
Svona lítur síða Samfylkingarinnar út í dag, en hún er meðal þeirra vefsíðna sem liggur niðri vegna kerfishruns hjá fyrirtækinu 1984 ehf. Mynd/Skjáskot

Um 60% af þeim vefsíðum sem eru í hýsingu hjá fyrirtækinu 1984, sem lenti í kerfishruni síðasta miðvikudag, eru komnar upp aftur. Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir í samtali við mbl.is að gert sé ráð fyrir að ná upp allt að 80% síðnanna í dag. Enn er óljóst hvað gerðist og segist Mörður ekki vilja útiloka neitt í þeim efnum. Fyrst verði þó unnið að því að koma vefjunum upp og svo farið í nákvæmari rannsókn á því hvað fór úrskeiðis.

Mörður segir að upphaflega planið hjá þeim hafi verið að ná öllum síðum upp í dag. Í gær hafi þó orðið ljóst að það myndi ekki takast og voru menn orðnir svartsýnni á tímaplön en áður. „En við erum brattari í dag en við vorum í gær,“ segir hann.

Þau 20% sem eftir standa eru að sögn Marðar tæknilega erfiðari mál og óljóst hvenær tekst nákvæmlega að koma þeim upp. Segir hann að stefnt sé að því að vefirnir verði einnig allir komnir upp fyrir næstu helgi, vonandi fyrr, en það þurfi að koma í ljós hversu mikil handavinna felist í uppsetningu þeirra á ný.

Mörður segir að tilviljun hafi ráðið því hvaða vefir urðu verst úti og taki nú lengri tíma að koma upp aftur. Þeir hafi enn ekki getað fundið neina eina ástæðu eða orsakavald fyrir því hvaða síðum varð erfiðara viðfangs að koma upp aftur.

Viðskiptavinir 1984 eru að sögn Marðar samtals um fimm þúsund og þar af er um þriðjungur erlendur. Segir hann að líklega séu vefir í hýsingu hjá þessum fimm þúsund aðilum á milli sjö og átta þúsund.

Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984 ehf.
Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984 ehf.

„Við vitum ekki um vef sem hefur tapað gögnum,“ segir Mörður spurður hvort eitthvað hafi tapast af gögnum. Þó séu einhverjir gagnagrunnar sem séu snúnir, en ljóst sé að þeir séu tímafrekari en önnur verkefni og verður farið í þá nú þegar búið er að endursetja aðra vefi. Segir Mörður að þessir erfiðustu gagnagrunnar séu innan við tíu talsins.

Eins og komið hefur fram í fyrri fréttum mbl.is um málið voru starfsmenn 1984 samankomnir á miðvikudaginn og fylgdust með því þegar gagnagrunnar fyrirtækisins hrundu. Segir Mörður að hópur af helstu sérfræðingum landsins í upplýsingatækni- og öryggismálum hafi reynt ýmislegt til að koma í veg fyrir hrunið en ekki haft erindi sem erfiði.

Síðan þá hafi starfsmenn fyrirtækisins og samstarfsaðilanna hjá Nýherja, Símafélaginu og Syndis unnið dag og nótt að því að koma öllu upp aftur. Segist hann gríðarlega þakklátur fyrir aðstoð og skilning viðskiptavina í þessum aðstæðum.

Spurður hvort eitthvað liggi nánar fyrir um ástæður hrunsins, hvort um sé að ræða tækjabilun, hrun í hugbúnaði eða jafnvel tölvuárás, segir Mörður að það verði skoðað betur þegar búið sé að sinna þeirri grunnskyldu að koma vefjunum upp á ný. Segir hann þó ekki hægt að útiloka neitt í þeim efnum og það muni koma í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert