Vonskuveður í vændum

Útlit er fyrir norðaustan hvassviðri eða storm með snjókomu eða …
Útlit er fyrir norðaustan hvassviðri eða storm með snjókomu eða éljum um landið norðanvert frá þriðjudegi til föstudags. Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með þróun veðurspáa og viðvarana. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hríðarbakki er væntanlegur úr norðri og síðdegis, upp úr kl. 16-17, mun veður versna til muna norðanlands og eins á norðanverðum Vestfjörðum.

„Reikna má með 15-20 m/s með ofankomu og skafrenningi. Mjög blint verður  við þessar aðstæður og einnig á láglendi. Þó að ekki snjói á sunnanverðum Vestfjörðum verður þar skafrenningur sem og á  Snæfellsnesi og í Borgarfirði.  Jaðar hríðarbakkans er skarpur. Honum er spáð við Tjörnes. Þar fyrir austan helst veður skaplegt,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Það er hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Suðurlandi. Eins er hálka eða snjóþekja á Vesturlandi og Vestfjörðum og eitthvað um éljagang og skafrenning. Þæfingur er á Vatnaleið, í Ísafjarðardjúpi og úr Bjarnarfirði og norður í Gjögur en þungfært er á Klettshálsi. Þæfingur er á Hrafnseyrarheiði en Dynjandisheiðin ófær.

Vetrarfærð er á Norðurlandi, snjóþekja eða hálka víðast hvar. Éljagangur eða snjókoma mjög víða. Þæfingsfærð er á Dettifossvegi en þungfært á Siglufjarðarvegi frá Hofsósi í Ketilás.

Á Austur- og Suðausturlandi er víða hálka eða snjóþekja en greiðfært frá Norðfirði suður að Höfn.

Vaxandi norðan- og norðaustanátt með snjókomu eða éljum, en lengst af þurrt og bjart sunnan til, 15-23 norðan og vestan til í nótt, en hægari um landið suðaustanvert þar til á morgun. Norðaustan 10-18 annað kvöld og él, en léttir til sunnanlands. Heldur hvassara suðaustan til. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins, segir á vef Veðurstofu Íslands en í athugasemd veðurfræðings kemur fram að útlit er fyrir norðaustan hvassviðri eða storm með snjókomu eða éljum um landið norðanvert frá þriðjudegi til föstudags. Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með þróun veðurspáa og viðvarana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert