Áfram vont veður víða

Vindaspá kl. 18 á landinu í dag.
Vindaspá kl. 18 á landinu í dag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Veðrið á Holtavörðuheiði og þar í grennd mun ekki ganga niður fyrr en eftir um 1-2 tíma, sagði Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur Veðurstofunnar, í samtali við mbl.is rétt fyrir klukkan 8 í morgun. Síðustu klukkustundir hefur þar verið mjög hvasst og hríðarveður og er fjöldi bíla enn fastur á heiðinni. „Það er ekki langt í að þessi strengur á þessum slóðum gangi niður, að minnsta kosti í bili,“ sagði Haraldur. „Við reiknum með að það dragi úr veðrinu eftir um 1-2 tíma. En svo mun veðrið ná sér aftur á strik seinni partinn [í dag].“

Haraldur segir að veður verði hvasst víðast hvar um landið í dag, einhvern tíma dagsins. „Veðrið er búið að vera rólegt í nótt á austurhelmingi landsins en þar er að hvessa með snjókomu og það mun sjóa víða, sérstaklega austan og norðan til á landinu. Suðvestanlands hvessir en það er lítil sem engin úrkoma sem mun fylgja því.“

Spá næsta sólarhringinn samkvæmt vef Veðurstofunnar er þessi: Norðaustan 15-23 m/s í dag með snjókomu og síðar éljum, en úrkomulítið suðvestanlands. Heldur hægari á Norður- og Austurlandi undir kvöld, en hvessir þá enn frekar á Suðausturlandi. 

Norðan 13-18 m/s á morgun, en 18-23 m/s á Suðausturlandi síðdegis og einnig á stöku stað við fjöll suðvestanlands. Snjókoma eða él fyrir norðan og austan, en yfirleitt þurrt sunnan heiða. Frost víða 0 til 5 stig.

Fylgist vel með veðurspám og færð

Útlit er fyrir hvassa norðanátt næstu daga með snjókomu eða éljum norðan- og austanlands, en varasömum vindstrengjum á sunnanverðu landinu. Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám og kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað.

Útlit er fyrir að veðrið gangi niður svo um munar á laugardag, fyrst um landið vestanvert.

Færð á vegum

Hálka er á höfuðborgarsvæðinu og hálka og skafrenningur á Sandskeiði, Hellisheiði og Lyngdalsheiði og þæfingsfærð á Mosfellsheiði. Hálka er mjög víða á Suðurlandi, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. 

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum og ófært á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Fróðárheiði. Mjög hvasst er á sunnanverðu Snæfellsnesi. 

það er snjóþekja eða hálka á sunnanverðum Vestfjörðum og skafrenningur á fjallvegum. Ófært er á Klettshálsi og Hjallahálsi. Einnig er ófært á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum og slæmt veður. Þungfært er í Ísafjarðardjúpi á Drangsnesvegi og á Innstrandavegi.  

Á Norðurlandi vestra er snjóþekja eða hálka á vegum og lokað yfir Þverárfjall. Þæfingsfærð er í Skagafirði og á Siglufjarðarvegi að Ketilási. Verið er að kanna ástand á Siglufjarðarvegi og Ólafsfjarðarvegi m.t.t. snjóflóðahættu. Norðaustanlands er hálka eða snjóþekja og töluverð snjókoma á Melrakkasléttu og Langanesi. Þungfært er í Hófaskarði. 

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Austurlandi og hálka eða hálkublettir með Suðausturströndinni frá Höfn og áfram suður. 

Hér má sjá kort sem sýnir færð á vegum eftir landshlutum.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert