Björg leiðir starfshóp um persónuvernd

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Golli

Starfshópur hefur verið skipaður til að aðstoða Björgu Thorarensen, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands og formann Persónuverndar, við að innleiða reglugerð um breytta persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins.

Breytingarnar leiða af reglugerð (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga sem kemur til framkvæmda innan Evrópusambandsins 25. maí á næsta ári, að því er segir í tilkynningu.

Reglugerðin mun ekki taka til Íslands fyrr en hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn með formlegum hætti. Upptökuferlið á reglugerðinni er í fullum gangi og er það markmið allra sem koma að því að þoka því áfram eins hratt og mögulegt er til að gildistakan í lok maí 2018 muni einnig taka til Íslands og hinna EFTA-ríkjanna innan EES.

Í starfshópnum eru þau Rósa Dögg Flosadóttir frá dómsmálaráðuneytinu, Vigdís Eva Líndal og Þórður Sveinsson frá Persónuvernd og Baldur Már Bragason frá rekstrarfélagi Stjórnarráðsins.

Áformað er að frumvarpið verði tilbúið um miðjan janúar 2018. Áætlað er að hefja eiginlegt samráð í tengslum við það með almenningi og hagsmunaaðilum um svipað leyti og jafnvel nokkru fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert