Eiga ekki fyrir útborgun

Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði.
Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði.

„Fjárhagsstaða leigjenda hefur batnað á síðustu tveimur árum og fleiri segjast geta lagt til hliðar en samt sjáum við leigumarkaðinn stækka. Fólk nær ekki að safna sér fyrir útborgun í íbúð því hækkun á fasteignaverði hefur verið meiri en kaupmáttaraukningin. Þetta er erfið staða, að sjá fólk á leigumarkaði vilja kaupa, leggja til hliðar en einfaldlega ekki geta keypt.“

Þetta sagði Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, í umræðu um íslenskan íbúðamarkað hjá Íslandsbanka.

Una sagði að víðast hvar erlendis væri heilbrigðari leigumarkaður en á Íslandi. Talið barst þá að því hvað gæti flokkast sem heilbrigður eða óheilbrigður leigumarkaður. Una sagði til marks um óheilbrigði íslenska leigumarkaðarins að hér verði fólk að meðaltali yfir 40% ráðstöfunartekna sinna í leigu. Því væri nauðsynlegt að styðja við óhagnaðardrifin leigufélög þar sem fólk gæti búið í öruggu húsnæði og greitt leigu í samræmi við greiðslugetu.

Húsnæði er mannréttindi

Una sagði nauðsynlegt í umræðunni um íbúðamarkaðinn hér á landi að hafa hugfast hvernig vöru við værum að fást við. „Þetta eru mannréttindi en ekki hefðbundin markaðsvara. Við verðum að hafa þak yfir höfuðið, þetta er grunnþörf.“ Una vísaði í nýútkomna skýrslu Reykjavíkurborgar þar sem segir að um 350 manns séu utangarðs á Íslandi en fyrir 5 árum hafi þessi hópur verið 180 manns. Staðan sé mjög alvarleg og þessi hópur verði illa úti að stórum hluta sökum húsnæðisástandsins. Þetta undirstriki þörfina fyrir óhagnaðardrifnu leigufélögin.

Hægt er að horfa á umræðuna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert