Ræða kynferðisofbeldi í pólitíkinni

Tæplega sex hundruð konur hafa skráð sig í hóp á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem umræður fara fram um kynferðisáreitni og annað kynferðisofbeldi sem konur hafi orðið fyrir í íslenskum stjórnmálum í gegnum tíðina.

Þetta staðfestir Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is en hún stofnaði hópinn á föstudaginn. Um er að ræða konur sem starfað hafa víða á vettvangi stjórnmála. Bæði í sveitarstjórnarmálum og landsmálum. Verið til dæmis ráðherrar, þingmenn, sveitarstjórnarmenn eða í ungliðapólitík.

Markmið hópsins er að ræða þessi mál og mótmæla þeirri menningu sem þrifist hafi í stjórnmálum hér á landi í gegnum tíðina eins og gerst hefur víða í nágrannalöndum okkar eins og Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum. 

Konurnar hafa ekki allar orðið fyrir slíku ofbeldi en þekkja þessa menningu og hafa margar orðið vitni að slíkri framkomu. Sögum af slíku er deilt í hópnum en þær eru nafnlausar og gerendurnir ekki heldur nafngreindir.

Birt verður áskorun fjölda kvenna síðar í dag um að horfið verði frá þessari menningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert