Styttist í greiðslu desemberuppbótar

Desemberuppbótin er fyrir marga góð búbót í aðdraganda jólahalds.
Desemberuppbótin er fyrir marga góð búbót í aðdraganda jólahalds. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú styttist í að desemberuppbót fyrir árið 2017 verði greidd út. Í öllum kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins er full desemberuppbót 86.000 kr. og skal vinnuveitandi greiða uppbótina eigi síðar en 15. desember. Þetta kemur fram í samantekt um desemberuppbót á vefsíðu SA.

Réttur til fullrar desemberuppbótar miðast við að starfsmaður hafi unnið 45 vikur eða meira á almanaksárinu, 1. janúar - 31. desember, fyrir utan orlof. Starfsmenn sem eru í vinnu fyrstu vikuna í desember ár hvert eiga ávallt rétt á uppbót í hlutfalli við starfstíma eða starfshlutfall á almanaksárinu.

Þeir sem hafa verið í fullu starfi allt árið eiga rétt á fullri uppbót, en þeir sem hafa unnið hlutastarf eiga rétt á greiðslu uppbótar í samræmi við starfshlutfall. Almennt er miðað við fast hlutfall dagvinnu eða vaktavinnu.

Vinni fólk mismikið á milli mánaða er hægt að miða við að full uppbót miðist almennt við 1.800 stundir yfir árið, þó 1.778 stundir hjá afgreiðslufólki og 1.687 stundir hjá skrifstofufólki. Tilfallandi yfirvinna telst þó ekki með í þessu sambandi. 

Þeir sem eru ekki í vinnu fá einnig desemberuppbót, en óskert des­em­berupp­bót at­vinnu­leit­enda verður 65.162 krón­ur í ár. Áætlað er að á bil­inu 3.900-4.200 ein­stak­ling­ar eigi rétt á des­em­berupp­bót frá at­vinnu­leys­is­trygg­inga­sjóði í ár.

Veikindi og fæðingarorlof skerða ekki uppbótina

Ef starfsmaður hefur verið fjarverandi vegna veikinda á almanaksárinu skal við útreikning uppbótar telja þær vikur með sem hann fékk greiddar. Desemberuppbót skerðist því aðeins ef starfsmaður hefur fullnýtt veikindarétt sinn og fallið af launaskrá.

Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desemberuppbótar og því ekki til skerðingar. Hið sama gildir ef kona þarf af öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngunni.

Dæmi um útreikning

Dæmi 1:
Verslunarmaður vinnur frá 1. janúar til 1. október eða samtals 39 vikur. Þar af tók hann sumarleyfi í 4 vikur. Hann fær því 77,8% af fullri uppbót (35 vikur / 45 vikur) eða kr. 86.000 x 0,778 = Kr. 66.908.

Dæmi 2:
Verkamaður hefur störf 1. október 2016 og fyrirséð er að hann mun starfa fram til áramóta. Frá 1. okt. til 31. des. eru 13 vikur. Hlutfall desemberuppbótar er 28,9% (13 vikur / 45 vikur). Uppbót hans er kr. 86.000 x 0,289 = kr. 24.854.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert