„Subbuskapur af verstu gerð“

Þorski fleygt í sjóinn. Myndin er úr safni.
Þorski fleygt í sjóinn. Myndin er úr safni. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

„Ég hef verið á mörgum skipum. Alls staðar hefur verið brottkast,“ sagði sjómaðurinn Trausti Gylfason í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV nú í kvöld. Þar var sýnt myndefni sem Trausti tók úti á sjó á árunum 2008-2011 og sýndi mikið brottkast á fiski, en brottkast er bannað með lögum.

„Þetta er bara subbuskapur af verstu gerð. Og auðvitað mjög alvarlegt. Svona skipstjórnarmenn eiga ekki að fá að stunda veiðar,“ sagði Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu, í viðtali þegar hann horfði á myndefnið, sem tekið var upp á skipinu Kleifabergi.

Í þættinum kom fram að fiski væri í einhverjum tilvikum kerfisbundið kastað í sjóinn, stundum í hverjum túr. „Nú er ekkert hægt að reka mig lengur fyrir þetta. Mér finnst rétt að þetta komi fram,“ sagði Trausti í þættinum, en hann missti vinnuna fyrr á árinu. Á myndunum sést hvernig þorski, karfa, makríl og ýsu er kastað í sjóinn í stórum stíl.

Beðinn um að mynda brottkastið

Trausti skýrði það sem fyrir augu bar þannig að verið væri að grisja aflann – og kasta þeim hluta aflans í hafið sem ekki væri jafn verðmætur. Hann sagði að samherjar sínar á skipinu hefðu beðið hann að mynda brottkastið – því þeim hafi ofboðið athæfið. Hann sagði að sjómennirnir hefðu fengið sérstakar skipanir þess efnis ef hirða hefði átt allt það sem veiddist. „Mannskapurinn var svo hneykslaður að þeir báðu mig að taka mynd af þessu.“

Fram kom í þættinum að dæmi væri um að á íslenskum skipum hefði það verið stundað að kasta afla í sjóinn þegar eftirlitsmaður Fiskistofu svaf eða var í mat. Einn maður gæti ekki fyglst með öllum stundum. Einnig kom fram að eftirlit Fiskistofu á sjó væri þrefalt minna, í dögum talið, núna en var fyrir nokkrum árum. Viðveran væri aðeins þriðjungur þess sem hún er núna.

Meint svindl á ísprósentu

Í Kveiki var fjallað með ítarlegum hætti um meintar framhjálandanir á Íslandi. Fram kom að skráð hlutfall íss (svokölluð ísprósenta) við vigtun í fiskvinnslum væri oft á tíðum margfalt hærra þegar starfsmenn Fiskistofu væri fjarstaddir. Hlutfall íss væri oft skráð á bilinu 15-20% við seinni vigtun en vel innan við 10% þegar starfsmenn Fiskistofu fylgdust með. Afleiðingar þessa væru að þess væru dæmi að meira magn af fullunni vöru færu út úr fiskvinnslunum en þangað hafi komið óunnið. Í þættinum var bent á að með þessu væru útgerðir að svindla á veiðiheimildum - skipin væru að veiða meira en fram kæmi í skráningum.

Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri, var í viðtali í þættinum.
Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri, var í viðtali í þættinum. Mynd/mbl.is

Þórhallur Ottesen, fyrrverandi deildarstjóri landeftirlits Fiskistofu til ríflega 20 ára, sagði að útgerðirnar fengju sjálfar að endurvigta fiskinn og að þau leyfi væru misnotuð. „Það vita um þetta, hvernig þetta er, en það er enginn vilji til að breyta þessu.“ Upphæðirnar sem meint svindl hlypi á mætti telja í milljörðum.

Fiskistofa gefist upp

Fram kom í þættinum að Fiskistofa væri bitlaus vegna skorts á mannafla og valdheimildum. Lögin væru óskýr og Fiskistofa væri vanmáttug til að takast á við meint svindl. Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu, svaraði því neitandi þegar hann var spurður hvort hann gæti rækt þær skyldur sem lögum samkvæmt eru lagðar á Fiskistofu. Stofnunin hefði ekki einu sinni reynt það undanfarin ár. Af því vissu stjórnvöld.

Hann lýsti því yfir að stofnunin hafi „verið búin að gefast upp“ á að reyna að eltast við framhjálandanir. Engar rannsóknir hafi verið gerðar á framhjálöndun undanfarin ár. „Við þurfum úrræði sem virka og bíta,“ sagði hann.

Fram kemur á RÚV að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi boðað til fundar í ráðuneytinu í fyrramálið vegna málsins. „Þar munum við fara yfir þetta hvernig og hvort við eigum að bregðast við. Þetta er tvímælalaust eitt af þeim málum sem bíður nýrrar ríkisstjórnar. Þetta er ekki gott ef rétt er,“ er haft eftir henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert