Vara við snjókomu og vindi

Vindaspá á hádegi í dag, þriðjudag.
Vindaspá á hádegi í dag, þriðjudag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Útlit er fyrir hvassa norðanátt næstu daga með snjókomu eða éljum norðan- og austanlands, en varasömum vindstrengjum á sunnanverðu landinu samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir í ábendingu að hríðinni muni slota fyrir norðan með morgninum og veður lagast mikið. Sömu sögu verði að segja milli kl. 8 og 10 á Vestfjörðum. 

Hins vegar snjóar austanlands um tíma framan af degi og útlit er fyrir hríðarbyl í Öræfum frá hádegi. Jafnframt hvessir mjög á milli kl. 12 og 13 og líkur eru á mjög snörpum byljum, allt að 40-45 m/s í hviðum, einkum á kaflanum frá  Skaftafelli austur fyrir Svínafell. Lægir ekki að gagni fyrr en um nóttina.    

Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám og kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað.

Útlit er fyrir minnkandi norðanátt á laugardag, fyrst um landið vestanvert. Spáð er skaplegu veðri á öllu landinu á sunnudag.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli lokaðir vegna snjóflóða og verður ekki skoðað fyrr en í birtingu í dag hvenær þeir verða opnaðir aftur.  Veginum um Súðavíkurhlíð var lokað á miðnætti og verður ekki skoðaður fyrr en í birtingu.

Veðurvefur mbl.is

Hér getur þú séð veðurviðvaranir Veðurstofunnar eftir landshlutum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert