Óvissustig vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum

Gera ráð fyrir að það verði mikið til ófært á …
Gera ráð fyrir að það verði mikið til ófært á Norðurlandi á morgun. mbl.is/Styrmir Kári

Búið er að lýsa yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum og þá hefur Veðurstofan uppfært veðurviðvörunina fyrir svæðið upp í appelsínugult.  Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir appelsínugulu viðvörunina fela í sér að búast megi við að veðrið hafi víðtæk áhrif í samfélaginu.

Þá hefur Vegagerðin greint frá því á vef sínum að Súðavíkurhlíð sé lokuð eftir snjóflóð.

„Það snjóar áfram og er leiðinda hvassviðri og ófærð og svo bætir snjóflóðahættan ekki úr skák,“ segir hann. „Á morgun verður meiri norðanátt og hvessir enn meira og verður raunar víða komið upp í storm.“ Þá bæti enn meira í snjóinn, en von sé á ofankomu á svæðinu frá norðanverðum Ströndum og yfir á Austurland. „Það mun bæta bæði í vindinn og úrkomu á morgun, þannig að það verður leiðindaástand á öllu norðanverðu landinu.“

Mikið til ófært á Norðurlandi

Raunar bæti svo mikið í snjókomuna fyrir norðan að kalla megi stórhríð. „Það má gera ráð fyrir að það verði mikið til ófært á Norðurlandi á morgun.“ Segir Þorsteinn og kveður ekkert ferðaveður verða á norðanverðu landinu og þar með talið Ströndum og Vestfjörðum.

Víða sé ófært á Vestfjörðum nú þear og ólíklegt að ástand þar lagist fyrr en í fyrsta lagi á föstudag. „Það má búast við samgöngutruflunum næstu tvo daga,“ segir hann.

Einnig er útlit fyrir hviður og jafnvel sandfok undir Vatnajökli og á Suðausturlandi og segir Þorsteinn hviður þar geta farið allt upp í 40-50 m/s. „Það er mikið að gerast í veðrinu á öllu landinu,“ bætir hann við og kveður byrja að hvessa enn frekar seint í kvöld.

Appelsínugul viðvörun er nú í gildi fyrir Vestfirði.
Appelsínugul viðvörun er nú í gildi fyrir Vestfirði. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Getur náð 50 m/s í verstu hviðum

Núna ná hviður undir Sandfelli í Öræfum 30 m/s og um og í kringum miðnætti gætu hviður á því svæði náð 40-45 m/s og fara jafnvel upp í 50 í fyrramálið. 

Einnig verði hviðótt og hvasst undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum og sé raunar orðið nú þegar, en í dag hafa hviður farið upp  í 37 m/s  í Hvammi undir Eyjafjöllum. Þá hafa hviðurnar við Kjalarnesið nálgast 40 m/s á dag, annars er hviðótt og hvasst á Suðvesturlandi en úrkomulaust að mestu.

Þorsteinn hvetur ökumenn því til að fara varlega, ekki hvað síst út af hálkunni á vegum. „Það þarf ekki mjög sterka hviðu til að feykja bílum út af veginum.“  

Það dregur úr hvassviðrinu um tíma á Suðausturlandi á morgun, en svo hvessir aftur og bætir í vind á Suðaustur- og Austurlandi á föstudag, en þá má búast við að sterkustu hviðurnar nái upp í 45-50 m/s.

Á laugardag fer síðan að lægja og létta til, en mun skaplegra veður verður í næstu viku samkvæmt spá.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert