Spá éljagangi og vindstrengjum

Veðurútlit á hádegi í dag.
Veðurútlit á hádegi í dag.

Norðanáttin geisar áfram á landinu og vindhraðinn þennan morguninn verður allhvass, sem má þó „teljast þokkalega sloppið miðað við það sem á undan er gengið - og það sem er í vændum“, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Ísland. Er fólk sem hyggur á ferðalög hvatt til að kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað og fylgjast vel með veðurspám.

Hæð er yfir Grænlandi, um 1050 mb sem er þrýstingur með hærra móti að sögn veðurfræðings. „Lægð er við Skotland og saman valda þessi tvö veðrakerfi norðan áhlaupinu sem geisar þessa dagana.“ Lægðin dýpkar síðan í dag sem þýðir að það muni bæta í vindinn síðdegis og þá megi búast við norðaustan hvassviðri, 15-23 m/s eða stormi á landinu.

Í dag verður éljagangur norðan- og austanlands með slæmu skyggni og ferðaveðri. Sunnanlands verður úrkomulaust, en þar er ferðalöngum bent á að vara sig á vindstrengjum og vindhviðum. 

Vindhraðinn á morgun mun heldur ekkert gefa eftir og má áfram gera ráð fyrir norðan hvassviðri eða stormi. „Hins vegar gera spár ráð fyrir að ofankoman verði þéttari og gæti jafnvel eitthvað af henni slæðst yfir á sunnanvert landið. „Þegar á heildina er litið má því búast við því að veður til ferðalaga verði heldur verra á morgun en í dag. Spár gera síðan ráð fyrir að þetta langdregna norðan áhlaup haldi áfram af fullum krafti á föstudag. 


Að lokum ber að geta þess að gert er ráð fyrir að veðrið gangi niður á laugardag. Fyrst lægir um landið vestanvert og verður orðið rólegt þar um hádegi, en austanlands verður orðið skaplegt á laugardagskvöldið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert