25% orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi

Fjórðungur landsmanna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á …
Fjórðungur landsmanna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á einhverjum tímapunkti, samkvæmt niðurstöðum úr nýrri könnun Gallup.

Fjórðungur landsmanna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á einhverjum tímapunkti, samkvæmt niðurstöðum úr nýrri könnun Gallup. Könnunin var gerð meðal einstaklinga í Viðhorfahópi Gallup nú í nóvember.

Er hlutfall þeirra kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni töluvert hærra en karla, eða 45%, á móti 15%. Þá hefur fólk í yngri aldurshópum frekar orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi en fólk á aldrinum 35 ára eða eldra. Hæst er hlutfallið í hópi þeirra sem eru 18-24 ára, eða 55% meðal kvenna og 23% meðal karla. 

Sé litið til erlendra rannsókna má sjá sambærilegar niðurstöður og koma fram í könnun Gallup. Þannig gerði Gallup í Bandaríkjunum könnun í lok október 2017 og samkvæmt þeim niðurstöðum hafa 42% kvenna og 11% karla orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Könnun sem BBC í Bretlandi lét gera um  svipað leyti sýndi að 53% kvenna og 20% karla höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í námi eða starfi.

Samanburð milli kannana ber þó að túlka með fyrirvara, þar sem orðalag spurninga og skilgreining á kynferðislegri áreitni var ólík.

Í könnun Gallup voru launþegar spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á síðastliðnum 12 mánuðum. Rúmlega 5% svöruðu spurningunni játandi, annaðhvort já, örugglega eða já, líklega, þar af 8% kvenna og 3% karla. Kynferðisleg áreitni var algengust í aldurshópnum 18-24 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert