Hafa upplýsingar um fleiri tilfelli

Vændismál er til rannsóknar hjá lögreglu.
Vændismál er til rannsóknar hjá lögreglu. AFP

„Þetta er umfangsmikið mál,“ sagði Snorri Birgisson, lögreglufulltrúi og yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Snorri var gestur í Síðdegisútvarpi Rásar 2 þar sem hann ræddi mál tengd vændi. Karl og kona voru í gær úrskurðuð í gæsluvarðhald til 6. desember vegna rannsóknar á umfangsmikilli vændisstarfssemi.

Hann sagði að einn grunur lögreglunnar væri að konur væru skipulega fengnar hingað til lands í þeim tilgangi að stunda vændi. „Við erum að rannsaka málið en teljum að þetta hafi ekki staðið yfir í langan tíma. Rannsókn hófst fyrir nokkrum vikum og við ákváðum að grípa inn í í fyrradag. Síðan hefur eitt leitt af öðru og einstaklingar hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald og rannsókn miðar ágætlega,“ sagði Snorri.

Hann sagði lögreglu sífellt berast fleiri upplýsingar tengdar mögulegum vændismálum og slíkar upplýsingar hafi verið að aukast upp á síðkastið. „Almennir borgarar hafa verið að hafa samband og við höfum upplýsingar um fleiri tilfelli,“ sagði Snorri.

Hann benti á að margir geri út íbúðir sínar. „Við höfum fengið upplýsingar frá þeim og þeir tilkynna að eitthvað undarlegt sé í gangi þá stundina.“

Mansalsþátturinn rannsakaður

Hann sagði að í málinu sem er til rannsóknar núna, sem og öllum vændismálum, þurfi að rannsaka mansalsþáttinn. Snorri vildi ekki fara nánar út í hvað hefði komið fram við þann þátt í rannsókn málsins en sagði að almennt ættu einstaklingar þá rétt á ákveðnum úrræðum:

„Eftir atvikum hefur Kvennaathvarfið verið fyrsti staður og þá er boðið upp á sálræna aðstoð,“ sagði Snorri og auk þess væri boðið upp á læknisaðstoð en fórnarlömb mansals þyrftu oft á miklum stuðningi að halda.

Hann sagði að allt liti út fyrir að vændi væri að aukast á Íslandi og eftirspurnin stýrði framboði í þeim málum. Snorri vildi ekki svara því hvort fleiri væru grunaðir um að tengjast málinu en sagði að þáttur kaupenda yrði rannsakaður: 

„Við munum fylgja eftir öllum þáttum þessa máls og þar á meðal rannsaka þátt kaupenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert