Kaup og viðgerðir kosta 7.516 milljónir

Orkuveita Reykjavíkur. Fyrirhugaðar viðgerðir eru metnar á tvo milljarða króna.
Orkuveita Reykjavíkur. Fyrirhugaðar viðgerðir eru metnar á tvo milljarða króna. mbl.is/Árni Sæberg

Það mun kosta Orkuveitu Reykjavíkur 7.516 milljónir króna, sjö og hálfan milljarð, að kaupa og lagfæra höfuðstöðvar félagsins. Þetta kemur fram í minnisblaði fjármálstjóra Reykjavíkurborgar sem lagt var fyrir borgarráð í dag. Þar er farið yfir forsendur þeirrar ákvörðunar að velja að kaupa húsnæðið – sem að hluta til er ónothæft vegna raka og myglu.

Fimm valkostir voru í stöðunni, samkvæmt minnisblaðinu. Sá fyrsti var eins og áður segir að kaupa allt hlutafé í fasteignafélaginu Fossi, sem á höfuðstöðvarnar og gera við skemmdirnar. Gert er ráð fyrir að viðgerðarkostnaður hlaupi á tveimur milljörðum króna og er sá kostnaður innifalinn í upphæðinni.

Annar kostur var að fara í mál við leigusalann, Foss, en það hefði getað kostað á bilinu sex til átta milljarða króna. Þriðji valkostur var að aðhafast ekkert og kaupa húsnæðið árið 2023. Það hefði kostað tæpa 8 milljarða. Fjórða úrræðið var að kaupa húsnæðið árið 2033 og hefði það kostað 8,8 milljarða, samkvæmt minnisblaðinu. Síðasti valkosturinn var samkvæmt minnisblaðinu að gera ekkert til ársins 2033 og flytja þá í nýjar höfuðstöðvar. Það er talið muni kosta 11 milljarða króna.

Fram kemur í minnisblaðinu að stjórn OR hafi aðeins talið tvo fyrstu valkostina koma til greina, að kaupa Foss og gera við húsnæðið eða fara í mál við Foss. Málaferlin voru metin mjög áhættusöm. Eins og mbl.is hefur greint frá hefur OR komist að samkomulagi við Foss um kaupverð upp á rúma 5,5 milljarða króna. Áætlað er að endurfjármagna skuldir Foss eftir kaupin með útgáfu skuldabréfa.

Fram kemur að valkostir OR séu allir erfiðir og enginn góður. Tillaga stjórnenda um að kaupa Foss feli í sér minnsta fjárhagslega áhættu. „Þessi valkostur skapar fyrirtækinu ennfremur tækifæri til að velja hagkvæmustu leiðina varðandi endurbætur á húsnæðinu og hvort það ákveði að vera áfram með starfsemi sína á Bæjarhálsi 1 eða selja eignina og færa starfsemina á annan stað,“ segir í áðurnefndu minnisblaði.

Fram kemur að kaupverðið sem samþykkt hafi verið sé „fremur lágt“ miðað við markaðsvirði sambærilegs húsnæðis. OR meti það svo að nýjar höfuðstöðvar myndu kosta 7,5 milljarða króna að núvirði.

Fjármálaskrifstofa borgarinnar kemst því að þeirri niðurstöðu, sem byggist á þeim gögnum sem komið hafa frá OR, að sú leið sem stjórnendur OR hafa lagt til sé sú rétta í stöðunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert