Myndaði nakta konu í sturtu

AFP

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa á síðasta ári tekið myndband af konu án hennar vitneskju þegar hún var nakin í sturtu. Þá fór hann inn í kvennaklefa í þeim tilgangi að taka myndband af annarri konu þegar hún var einnig nakin í sturtu, einnig án hennar vitneskju.

Hann var einnig dæmdur til að greiða konunum tveimur samtals 400.000 kr. í miskabætur. Dómur héraðdóms var kveðinn upp á mánudag.

Héraðssaksóknari ákærði manninn í október og var ákæran í tveimur liðum. Í þeim fyrri var hann sakaður um kynferðisbrot, með því að hafa í Reykjavík í fyrra farið inn í kvennaklefa á ónefndum stað og tekið myndband á snjallsíma sinn af konu án hennar vitneskju, þar sem hún var nakin í sturtu. Með háttsemi sinni særði ákærði blygðunarsemi konunnar.

Í seinni liðnum var hann ákærður fyrir tilraun til kynferðisbrots, með því að hafa í Reykjavík í fyrra farið inn í kvennaklefa á ónefndum stað í þeim tilgangi að taka myndband á snjallsíma sinn af annarri konu án hennar vitneskju, nakinni í sturtu en hætt við er hann mætti konunni þar sem hún var á leið úr klefanum. Maðurinn hélt á símanum og var með kveikt á myndavél símanns er hann mætti konunni. Var háttsemi ákærða til þess fallin að særa blygðunarsemi hennar.

Könurnar kröfðust hvor um sig að manninum yrði gert að greiða þeim eina milljón króna í miskabætur.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi játað brot sín skýlaust og kvaðst strax hafa viðurkennt brot sín fyrir konunum og öllum hlutaðeigandi. Hann hafi leitað sér faglegrar aðstoðar og fylgi því eftir enn í dag. Þá gerði hann grein fyrir sínum persónulegu högum en honum var sagt upp störfum í kjölfar þess að hann greindi vinnuveitanda sínum frá þessu máli.

Þá segir, að maðurinn hafi ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Litið sé til þessa við ákvörðun refsingar. Til refsimildunar horfir að maðurinn hefur í kjölfar þessa máls leitað sér faglegrar aðstoðar, m.a. hjá geðlækni en ítarlegt vottorð hans er á meðal gagna málsins. Í vottorðinu er meðferð mannsins lýst og kemur fram að hann hafi stundað hana vel. Þá hafi hann sýnt iðrun. Hafi hann tekið miklum framförum og sýnt vilja til þess að ná tökum á lífi sínu. Um batahorfur segir að um fíkn þessa gildi sömu lögmál og um aðrar fíknir, engin leið sé að segja til um varanlegan árangur meðferðar en stundi ákærði meðferðina og fari eftir öllum ráðleggingum, séu batahorfur góðar.  Þá sé til þess að líta að ákærði hefur sýnt iðrun sína í verki gagnvart brotaþolum með því að biðja þær afsökunar á framferði sínu.

Til refsiþyngingar horfir að um alvarleg brot er að ræða gegn kynfrelsi tveggja einstaklinga. Gildir hér einu þó að um tilraun hafi verið að ræða í öðru tilviki enda ljóst að ásetningur mannsins stóð til að fullfremja brotið. 

Sem fyrr segir, var maðurinn dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Héraðsdómur dæmdi konunni sem maðurinn myndaði nakta. 250.000 kr. í miskabætur og hinni, sem maðurinn gerði tilraun til að mynda, 150.000 kr. Maðurinn er auks þess dæmduri til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns 270.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert