Nokkrir bílar út af í Bólstaðarhlíðarbrekku

Björgunarsveitarfólk að störfum í vondu veðri. Myndin er úr safni.
Björgunarsveitarfólk að störfum í vondu veðri. Myndin er úr safni. mbl.is/Landsbjörg

Flutningabifreið með tengivagn valt út af veginum í Bólstaðarhlíðarbrekku á Norðurlandi nú í kvöld. Ökumanninn sakar ekki, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Í það minnsta tveir aðrir bílar hafa farið út af veginum í brekkunni og þar eru fleiri bílar í vandræðum – enda aðstæður afar erfiðar.

Óskar Stefánsson, lögreglumaður á Blönduósi, segir að vegurinn sé enn opinn en þar sé mikil hálka og snjó sé farið að festa. „Flutningabíllinn fór á vinstri hliðina, sem betur fer“ segir Óskar í samtali við mbl.is en mjög bratt er niður brekkuna hinum megin.

Björgunarsveit úr Varmahlíð er á vettvangi á tveimur bílum. „Það eru nokkrir bílar út af,“ segir Óskar um stöðu mála. Hann hrósar björgunarsveitinni í hástert fyrir ósérhlífni og dugnað og þá hafi vegfarendur hjálpað hver öðrum. Óskar var í miðjum klíðum að taka við skilaboðum þegar mbl.is ræddi við hann. „Maðurinn er kominn út úr bílnum,“ heyrði blaðamaður sagt í talstöð á meðan símtalinu stóð og Óskar endurtók: „Heyrðir þú þetta? Hann er kominn út úr bílnum.“

Bólstaðarhlíðarbrekkan er stundum erfið viðureignar. Um hana þarf að fara …
Bólstaðarhlíðarbrekkan er stundum erfið viðureignar. Um hana þarf að fara þegar ekið er frá Blönduósi, um Vatnsskarð og yfir í Skagafjörð. Kort/Map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert