Opnað fyrir umferð undir Eyjafjöllum

Búið er að opna vegi fyrir umferð undir Eyjafjöllum og …
Búið er að opna vegi fyrir umferð undir Eyjafjöllum og eins frá Freysnesi að Höfn, en enn er lokað á Skeiðarársandi mbl.is/RAX

Búið er að opna vegi fyrir umferð undir Eyjafjöllum og eins frá Freysnesi að Höfn, en enn er lokað á Skeiðarársandi að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Óvíst er hvort unnt verður að opna um Skeiðarársand og Öræfasveit fyrr en um miðjan dag. Lokunarsvæði nær allt austur að Höfn og þá er einnig lokað frá Djúpavogi að Þvottá og á Fagradal. 

Veður fer heldur skánandi nú um hádegi undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, en áfram verður þó hvasst á þeim slóðum. Búast má við mjög snörpum, en staðbundnum strengjum í allan dag frá Lómagnúpi og austur um á sunnanverða Austfirði. Lokað er á hringvegi frá Markarfljóti að Vík.

Austan og norðaustan til á landinu, hvessir hins vegar enn frekar þegar líður á daginn og meðalvindur verður þar 20-25 m/s með miklum skafrenningi og snjókomu að auki. Eru Mývatns- og Möðrudalsöræfi lokuð og ólíklegt að þar opnist í dag. 

Á þjóðveginum á milli Reykjavíkur og Akureyrar er útlit fyrir að um hádegi bæti í snjókomuna og eins lítið eitt í vind. Mjög blint verður um tíma eftir miðjan daginn og fram á kvöld, t.a.m. á Holtavörðuheiði.  Líkur eru því á að Holtavörðuheiði lokist um miðjan dag, sem og leiðin yfir Vatnsskarð og Þverárfjall. Þá má búast við að Siglufjarðarvegur lokist einnig er líður á daginn. Einnig má búast við erfiðri færð og akstursskilyrðum í Húnavatnssýslum og í kringum Blönduós. 

Vestur á fjörðum nær veðrið hámarki um hádegisbil  og fram á nótt. Vindur verður þó óvíða meiri þar en 15-18 m/s. Farið verður frá Patreksfirði kl. 14.00 með mokstursbíl til að opna Klettsháls og svo aftur til baka á milli kl. 16.00 og 17.00.

Óvíst er hvort hægt verður að opna langleiðir á Norður- og Austurlandi fyrr en á laugardag, en líklega verður hægt að opna fyrr á Vestfjörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert