Ræningjunum sleppt úr haldi

Lögreglan hefur sleppt mönnunum þremur úr haldi.
Lögreglan hefur sleppt mönnunum þremur úr haldi. mbl.is

Þremenningunum, sem réðust á og rændu mann á sjötugsaldri á heimili hans við Melgerði í vesturhluta Kópavogs á þriðjudagskvöld, var sleppt úr haldi lögreglu í gærkvöldi eftir yfirheyrslur. Lögregla mun ekki fara fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum.

Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að lögreglufulltrúar hafi metið málið og ekki talið ástæðu til að halda mönnunum lengur, en þeir verða kærðir fyrir árásina.

Hann segir mennina þrjá, sem allir hafa komið við sögu lögreglu áður, ekki hafa gefið neinar skýringar á framferði sínu. Líklega hafi þeir bara verið „kolruglaðir“, en þeir voru undir miklum áhrifum eiturlyfja er árásin átti sér stað og þurfti að leyfa vímunni að renna af þeim áður en þeir voru hæfir til yfirheyrslu.

Húsráðandi var illa farinn í andliti eftir árásina og meðal annars brotnuðu í honum tennur. Rætt er við manninn á vefsíðu Vísis, og ber hann sig vel þrátt fyrir atvikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert