Rafmagnslaust fyrir austan

Flugstöðin á Egilsstaðaflugvelli.
Flugstöðin á Egilsstaðaflugvelli. mbl.is/Sigurður Bogi

Rafmagnslaust er á Egilsstöðum og Héraði. Að sögn fréttaritara mbl.is á Egilsstöðum er þar allt svart. Einu ljósin sem sjást eru frá flugvellinum og sjúkrahúsinu en gera má ráð fyrir að í þeim tilvikum sé keyrt á varaafli.

Eftir því sem mbl.is kemst næst er líka rafmagnslaust á Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Á Eskifirði mun rafmagn hafa farið af um stundarsakir.

Samkvæmt stjórnstöð Landsnets er þessa stundina verið að reyna að greina bilunina en rafmagnið fór af rétt fyrir klukkan hálftólf. Tilkynningar er að vænta, þegar greining liggur fyrir, á vef Landsnets.

Uppfært kl. 00:04: Á Landsnet hefur verið sett inn tilkynning: „Eyvindarárlína 1 leys[t]i út og [í] kjölfarið leysti út spennar [sic] á Stuðlum. Álag fór út hjá notendum á Austurlandi, Unnið [sic] er að uppbyggingu í samráði við Rarik“

Samkvæmt nýjustu upplýsingum mbl.is er rafmagn aftur komið á á Egilsstöðum hið minnsta.

Við þetta má bæta að fjallvegir á landinu eru víða lokaðir vegna veðurs og ófærðar. Veginum fyrir Ólafsfjarðamúla hefur verið lokað vegna hættu á snjóflóðum, samkvæmt tilkynningu sem var að berast frá Vegagerðinni. Þar segir að aðstæður verði skoðaðar með morgninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert