Sáu blágrænt ljós þjóta yfir himininn

Breiðdalsvík. Hrafnkell segir ljósið hafa virst, þeim sem voru í …
Breiðdalsvík. Hrafnkell segir ljósið hafa virst, þeim sem voru í Kaupfélaginu, vera rétt ofan við klettana. Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

Íbúar á Breiðdalsvík sáu blágrænt ljós á himni á mikilli ferð yfir bænum á þriðjudag. Greint er frá málinu á vefnum Austurfrétt, sem hefur eftir sérfræðingi að væntanlega sé um loftstein að ræða sem hafi komið inn í gufuhvolf jarðar.

Hrafnkell Hannesson var einn þeirra íbúa sem varð var við ljósaganginn. Hann var staddur í Kaupfélaginu þegar ljósið fór yfir. „Þaðan sem við sátum virtist ljósið vera mjög nálægt,“ segir Hrafnkell í samtali við mbl.is. Ljósið hafi virst vera rétt yfir klettunum.

„Það hringdi þó í mig maður áðan frá raunvísindadeild Háskóla Íslands og hann taldi þetta vera loftstein,“ segir Hrafnkell. „Mér skilst líka að ljósið hafi verið töluvert hærra uppi og lengra frá en okkur sýndist.“

Grínuðust með hvort geimverurnar væru komnar

Þá hafi kona sem var á bíl utan við þorpið einnig séð ljósið. „Þaðan sem hún sér þetta var það miklu lengra í burtu en okkur sýnist,“ segir hann sem styður álit sérfræðingsins.

Hrafnkell segist bara hafa séð ljósið í örskotsstund, en stúlkan sem sat á móti honum hafi séð það svolítið lengur. Hann segir þeim ekki hafa brugðið. „Við grínuðumst með það hvort geimverurnar væru komnar.“

Ekki er venjulega mikið um ljósgang á Breiðdalsvík að sögn Hrafnkels. „Maður hefur oft séð stjörnuhrap, en ekki svona. Ekki svona bláan-grænan lit,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert