Starfshópur um seinkun klukku

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að kanna ávinning fyrir lýðheilsu og vellíðan landsmanna af því að leiðrétta klukkuna hér á landi til samræmis við gang sólar.

Þetta kemur fram á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands. Þar segir að miðað við sólargang og legu lands sé klukkan á Íslandi of fljót. 

„Nokkuð hefur verið fjallað um að þessi munur skekki þær upplýsingar sem lífsklukkan nýtir til að samhæfa starfsemi líkamans eftir vöku- eða svefntíma. Þetta valdi svokallaðri klukkuþreytu sem hafi neikvæð áhrif á svefnvenjur sem aftur auki líkur á ýmsum heilbrigðisvandamálum, s.s. offitu, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum,“ segir á vefsíðu stjórnarráðsins.

Bent er á að tillaga til þingsályktunar um seinkun klukkunnar á Íslandi um eina klukkustund var lögð fram á Alþingi árið 2015 en hlaut ekki efnislega umfjöllun.

Formaður starfshópsins er Ásthildur Knútsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu. Aðrir í hópnum eru Björg Þorleifsdóttir, lektor við læknadeild Háskóla Íslands, Erla Björnsdóttir sálfræðingur, stofnandi og stjórnarformaður fyrirtækisins Betri svefns, og Sveinbjörn Kristjánsson, verkefnastjóri hjá embætti landlæknis.

Hópurinn mun skila ráðherra minnisblaði með niðurstöðum sínum fyrir 1. febrúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert