Svikahrappar senda fölsk fyrirmæli

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsbankinn varar á heimasíðu sinni við svikahröppum sem senda út falska tölvupósta. Fram kemur í frétt á vef bankans að hrapparnir sendi fölsk fyrirmæli til starfsfólks fyrirtækja um að millifæra fé á erlenda bankareiknina. Á þessu hefur borið undanfarna daga.

„Svikatilraunirnar sem Landsbankinn hefur fengið fregnir af lýsa sér þannig að tölvupóstur sem virðist við fyrstu sýn vera frá framkvæmdastjóra fyrirtækis, en er í raun frá fjársvikurum, er sendur á fjármálastjóra eða annan sem sér um fjármál og greiðslur hjá fyrirtækjum,“ segir í fréttinni. Spurt sé hvort tiltekin fjárhæð sé til reiðu á bankareikningi og í kjölfarið er óskað eftir að hún millifærð á erlendan reikning.

Fram kemur á vefnum að svik af þessum toga hafi færst í aukanna undanfarin ár. Mikilvægt sé að hafa samband við lögreglu (cyberchrim@lrh.is) ef fólk telur sig hafa orðið fyrir árás af þessu tagi, sem og viðskiptabanka sinn. Bankinn muni þá setja af stað ferli til að endurheimta féð.

„Því fyrr sem tilkynning berst, þeim mun líklegri eru endurheimtur. Ennfremur er mikilvægt að kæra öll mál til lögreglunnar. Sjaldnast er ráðist á eitt fyrirtæki í einu og það gerir tilkynningar til lögreglu enn brýnni.“

Umfjöllun Landsbankans um hvernig þekkja megi „fyrirmælafalsanir“ má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert