Sýknaður í 80 milljóna kr. fjárdráttarmáli

Hæstiréttur hefur sýknað mann sem var dæmdur í 9 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands fyrir fjárdrátt, en hann var sakaður um að hafa dregið að sér 79 milljónir króna úr einkahlutafélagi sem hann átti helmingshlut í. 

Dómur héraðsdóms féll í júní í fyrra, en með dómi sínum í dag hefur Hæstiréttur sýknað manninn. 

Auk þess að eiga helmingshlut í félaginu, þá starfaði maðurinn hjá því og var fyrirsvarsmaður þess. 

Sakaður um að hafa misnotað reikninga félagsins

Manninum var í fyrsta lagi gefið að sök að hafa í 92 tilvikum greitt reikninga vegna byggingar húss í sinni eigu af bankareikningi félagsins. Í öðru lagi að hafa í 5 tilvikum greitt reikninga vegna framkvæmda við iðnaðarhúsnæði í sinni eigu af bankareikningi félagsins. Í þriðja lagi að hafa í 38 tilvikum og án skýringa, ýmist millifært á eigin reikninga eða tekið út fé af bankareikningi félagsins og í fjórða lagi að hafa í 45 tilvikum millifært fjármuni af bankareikningi félagsins inn á eigin reikninga með þeirri skýringu að um væri að ræða laun til sín.

Fyrir lá að ríkisskattstjóri hafði á grundvelli skattrannsóknar tekið álagningu gjalda mannsins til endurskoðunar, talið umræddar greiðslur til launa hans og hækkað tekjuskattsstofn hans því til samræmis á því tímabili er um ræddi að viðbættu álagi.

Fór fram á frávísun sem var hafnað

Maðurinn krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi þar sem saksóknin á hendur honum væri andstæð 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu um bann við því að maður sæti lögsókn eða refsingu að nýju í sakamáli sem hann hefur þegar verið sakfelldur fyrir.

Hann vísaði í þeim efnum til þess að honum hefðu þegar verið gerð viðurlög fyrir ætluð brot með álagi sem ríkisskattstjóri hefði bætt við gjaldstofna við endurákvörðun gjalda hans.

Hæstiréttur vísaði hins vegar til þess að umrætt álag hefði falið í sér viðurlög fyrir þá háttsemi mannsins að hafa skilað efnislega röngum skattframtölum þar sem tekjur hans hefðu verið vantaldar.

Í því máli sem hér um ræddi væri manninum hins vegar gefið að sök brot gegn 247. gr. laga nr. 19/1940 með því að hafa í 180 tilvikum dregið sér fé frá umræddu félagi. Lyti málið því hvorki að sömu brotum né sömu háttsemi eða athöfnum og maðurinn hefði sætt viðurlögum fyrir með úrskurði ríkisskattstjóra.

Var kröfu hans um frávísun málsins því hafnað.

Rannsókn málsins var í ýmsu áfátt

Að öðru leyti vísaði Hæstiréttur til þess að rannsókn málsins hefði verið í ýmsu áfátt og engin teljandi gögn lögð fram um fjárhag félagsins, færslur í bókhaldi þess eða stöðu einstakra reikningsliða þar á mismunandi tímum. Væri því ekki við annað að styðjast en þær takmörkuðu upplýsingar sem fram kæmu í úrskurðum ríkisskattstjóra, þar sem gengið hefði verið út frá að umræddar greiðslur skyldu allar skoðast sem laun mannsins og að allar þær greiðslur sem hann hefði ráðstafað af bankareikningi félagsins hefðu verið færðar í bókhaldi þess.

Hefðu þær færslur meðal annars valdið lækkun á eignarlið vegna innstæðu á bankareikningnum en jafnframt myndað aðra bókfærða eign félagsins sömu fjárhæðar. Gæti maðurinn því ekki einvörðungu með framkvæmd umræddra ráðstafana hafa tileinkað sér hluta af fjármunum félagsins og svipt það um leið varanlegum umráðum þeirra þannig að í bága færi við 247. gr. almennra hegningarlaga.

Í málinu lægi ekkert fyrir um afdrif þeirra eigna sem færðar hefðu verið í bókhaldi félagsins á síðari stigum og ákæruvaldið ekkert leitt í ljós um þau atvik sem gætu falið í sér að maðurinn hefði tileinkað sér þau verðmæti að einhverju eða öllu leyti. Væri því ósannað að tilgangur hans hefði verið annar en sá að koma sér undan því um sinn að greiða opinber gjöld af endurgjaldi fyrir vinnu sína í þágu félagsins og annarri úthlutun verðmæta frá því.

Maðurinn var því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert