Þórhildur Sunna kjörin þingflokksformaður

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Hari

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur verið kjörinn nýr þingflokksformaður Pírata, en kosið var í stjórn þingflokksins á þingflokksfundi í vikunni. Helgi Hrafn Gunnarsson var kjörinn varaþingflokksformaður og Jón Þór Ólafsson er ritari þingflokks.

Þórhildur Sunna, sem er lögfræðingur að mennt, hefur verið þingmaður Pírata síðan haustið 2016, var oddviti Pírata í Reykjavík suður í nýafstöðnum kosningum og hefur verið „aðalsamningamaður“ flokksins í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar. Þar að auki hefur hún verið alþjóðaritari framkvæmdaráðs Pírata og setið í úrskurðarnefnd flokksins, að því er segir í fréttatilkynningu Pírata.

„Píratar hafa - allt frá því að stjórnarmyndunarviðræðum milli Pírata, Samfylkingar, Framsóknar og Vinstri grænna lauk - einbeitt sér að því að skipuleggja starfið framundan í vetur og áherslur Pírata fyrir komandi kjörtímabil. Þar ber helst að nefna baráttu fyrir auknu upplýsinga- og tjáningarfrelsi, auknu gagnsæi á þingi sem og í stjórnsýslunni og bættri mannréttindavernd í margvíslegum skilningi," er haft eftir Þórhildi Sunnu í fréttatilkynningu flokksins.

Hefur verið þingflokksformaður áður

Hún hefur áður gegnt hlutverki þingflokksformanns Pírata, frá því í nóvember í fyrra til septembermánaðar á þessu ári, er Birgitta Jónsdóttir tók við formannshlutverkinu.

Er Þórhildur Sunna tók við hlutverkinu í fyrra sagði í frétt frá Pírötum að embætti formanns væri aðeins álitið formlegs eðlis innan flokksins og hafi ekki í för með sér „nein sérstök valdsvið eða ábyrgð“.

Þá kom einnig fram að sam­kvæmt lög­um Pírata eigi þingmenn þeirra að hafna því 50% launa­álagi sem for­menn flokka á Alþingi fá greitt ef þeir gegna ekki ráðherra­embætti sam­hliða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert