Báðar stúlkurnar með meðvitund

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Unglingsstúlkurnar tvær sem fundust meðvitundarlausar í miðbænum í gærkvöldi eru komnar til meðvitundar. Lögreglan hefur rætt stuttlega við aðra stúlkuna en ekki hina. Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi staðfestir þetta í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá því að þær væru komnar til meðvitundar.

Guðmundur Páll segir að grunur leiki á um að stúlkurnar, sem eru aðeins fimmtán ára gamlar, hafi neytt eiturlyfsins MDMA. Hann segir að lítið liggi fyrir um aðdraganda málsins en segir að rannsóknin beinist ekki að neinum öðrum aðila. Ekki hefur fengist staðfest hvernig lyfja stúlkurnar neyttu eða hvar þær fengu efnin. Spurður hvort þær hafi sjálfar komið sér á þann stað sem þær fundust segir Guðmundur að fram hafi komið að þær hafi verið á ferð um miðbæinn. Annað liggi ekki fyrir.

Lögreglan bíður þess nú að hægt verði að ræða betur við stúlkurnar, en þær liggja á Barnaspítala hringsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert