„Ekki grunur um nýtt efni“

Mennirnir tveir sem réðust á barn eru frjálsir ferða sinna.
Mennirnir tveir sem réðust á barn eru frjálsir ferða sinna. mbl.is/Eggert

„Það er ekki grunur um nýtt efni sem er ekki þekkt,“ segir Grímur Grímsson, yf­ir­lög­regluþjónn á höfuðborg­ar­svæðinu, spurður hvort grunur leiki á að mennirnir tveir sem réðust á fimm ára barn í aft­ur­sæti bif­reiðar og blóðguðu við gatna­mót Lauga­vegar og Snorra­braut­ar síðdeg­is á miðvikudag hafi verið undir áhrifum nýrra eiturlyfja sem ekki eru þekkt. 

Mennirnir höfðu neytt eiturlyfja en niðurstaða eiturefnarannsóknar liggur ekki fyrir fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku. Mennirnir báðir eru um þrítugt og hafa komið við sögu lögreglunnar áður.      

Mennirnir tveir voru yf­ir­heyrðir í gær en ekki þótti ástæða til að krefjast þess að þeir yrðu hneppt­ir í gæslu­v­arðhald. „Gæsluvarðhald er aldrei refsing en gerð í öryggissjónarmiði annars vegar vegna rannsóknarhagsmuna eða hins vegar almannahagsmuna. Það var metið að mennirnir myndu ekki halda áfram slíkum brotum,“ segir Grímur.

Málið er enn í rannsókn en er ekki „mjög flókið“ að sögn Gríms. Þegar rannsókn lýkur tekur ákærusviðið afstöðu til þess hvort efni sé til að ákæra eða ekki. Það tekur líklega að minnsta kosti nokkrar vikur.  

„Þetta er óskaplega ömurlegt að svona gerist í annars öruggri borg. Við munum fylgja þessu vel eftir,“ segir Grímur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert