Flýði lögregluna og ók á hús

mbl.is/Hjörtur

Karlmaður á þrítugsaldri missti stjórn á bifreið sinni þegar hann reyndi að flýja lögregluna og ók á gamla Austurbæjarbíó í Reykjavík. Ökumaðurinn og farþegi voru í kjölfarið handteknir. Grunur var um að ökumaðurinn væri undir stýri eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum.

Lögreglan hafði gefið ökumanninum merki um að stöðva en við það gaf hann í og ók frá Hringbraut, tvisvar yfir á rauðu ljósi og hefur líklega ætlað að beygja inn á Njálsgötu en náði ekki beygjunni að sögn Jóhanns Karls Þórissonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Lögreglubílinn ók aðeins aftan á bifreiðina að sögn Jóhanns til þess að tryggja að ökumaðurinn reyndi ekki að komast af stað aftur. Ökumaðurinn og kona sem var farþegi voru flutt á slysadeild Landspítalans og síðan handtekin og vistuð í fangageymslum.

Talsvert af hlutum voru í bifreiðinni og er grunur um að hugsanlega sé um þýfi að ræða. Maðurinn hélt því fram að hann væri að flytja á milli íbúða en Jóhann segir að það verði rannsakað hvort það sé rétt eða hvort um eitthvað illa fengið sé að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert