Fræddu flóttafólk í Jórdaníu um Ísland

Fólkið sótti fjögurra daga námskeið þar sem fjallað var meðal …
Fólkið sótti fjögurra daga námskeið þar sem fjallað var meðal annars um íslenskt samfélag almennt, réttindi, skyldur og jafnrétti. Ljósmynd/velferðarráðuneytið

Íslensk sendinefnd fór í síðustu viku til Jórdaníu og hélt þar námskeið í samstarfi við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM) fyrir um 50 manna hóp flóttafólks frá Sýrlandi og Írak sem statt er í Amman. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafði áður óskað eftir því við íslensk stjórnvöld að flóttafólkinu verði boðin alþjóðleg vernd á Íslandi.

Í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu segir að fólkið hafi sótt fjögurra daga námskeið þar sem fjallað var meðal annars um íslenskt samfélag almennt, réttindi, skyldur og jafnrétti.  Einnig var fjallað um stöðu flóttafólks almennt, áhrif þess að flytjast til nýrra heimkynna og reynt að svara þeim spurningum sem brunnu helst á fólki. Má þar nefna spurningar um menntakerfið og stöðu og möguleika flóttafólks á Íslandi. 

Íslenska sendinefndin tók einnig viðtöl við fólkið til að meta þarfir þess og tryggja að það geti fengið viðunandi þjónustu ef og þegar það kemur til Íslands.

Vel undirbúið

Íslenska sendinefndin fundaði eftir heimkomuna með flóttamannanefnd og gerði grein fyrir ferð sinni til Amman og áhuga fólksins sem hún hitti þar til þess að flytjast til Íslands. Í sendinefndinni voru fulltrúi velferðarráðuneytisins, fulltrúi Útlendingastofnunar og fulltrúi Rauða krossins. Í máli þeirra kom fram að fólkið hafi verið vel undirbúið fyrir námskeiðið og hafi reynt að afla sér þekkingar um land og þjóð. Ljóst sé að um berskjaldaðan hóp er að ræða þar sem lítið má út af bera til þess að heilsu og öryggi fólksins sé stefnt í hættu. Í hópnum er fjöldi barna sem þrá allra helst að komast í öryggi og hafa trygga framtíð. 

Flóttamannanefnd mun á næstunni gera tillögu til félags- og jafnréttismálaráðherra og utanríkisráðherra um hvaða fjölskyldum skuli boðin alþjóðleg vernd á Íslandi.

Átökin í Sýrlandi hafa nú varið í yfir sjö ár og er Jórdanía eitt þeirra landa sem hafa tekið við hve flestum flóttamönnum frá Sýrlandi. Áætlaði er að yfir 80% flóttamanna búi undir fátækramörkum og 51% flóttamanna séu börn. Yfir 78% flóttamanna búa í borgum, þar af eru 34,5% allra flóttamanna í Amman. Áætlað er að um 89% allra flóttamanna komi frá Sýrlandi eða um 655.000 manns en næst þar á eftir koma Írakar sem eru um 9% alls flóttafólks í Jórdaníu.

Mikil áhersla hefur verið hjá alþjóðasamfélaginu að taka á móti flóttafólki frá Sýrlandi en Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna óskaði eftir við íslensk stjórnvöld að tekið yrði á móti bæði Írökum og Sýrlendingum. Staða Íraka er erfið í Jórdaníu þar sem þeim reynist mjög erfitt að fá atvinnuleyfi og hafa ekki heimild til þess að dvelja í flóttamannabúðum sem þar eru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert