Frekari yfirheyrslur eftir helgina

„Skýrslutökur héldu áfram í gær og rannsókn málsins miðar ágætlega. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt sem hefur komið fram. Ég reikna með að við munum halda áfram yfirheyrslum í næstu viku og líkur á að línur fari að skýrast meira,“ segir Snorri Birgisson, lögreglufulltrúi og yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is vegna rannsóknar á umfangsmikilli vændisstarfssemi.

Frétt mbl.is: Hafa upplýsingar um fleiri tilfelli

Karlmaður og kona á fertugs- og fimmtugsaldri voru á miðvikudaginn úrskurðuð í gæsluvarðhald til 6. desember vegna rannsóknar á málinu sem snýst um meinta milligöngu um vændi hér á landi. Lögreglan hóf rannsókn málsins fyrir nokkrum vikum en ákveðið var að grípa inn í þriðjudaginn. Talið er að konur hafi verið með skipulögðum hætti verið fengnar til landsins til þess að stunda vændi. Ekki er talið að starfsemin hafi farið fram í langan tíma.

„Ég held að það sé farið að slá upp í tíu yfirheyrslur sem hafa farið fram í vikunni en ekki er þó um að ræða tíu einstaklinga. Bæði vitni og sakborningar hafa verið yfirheyrðir tvisvar,“ segir Snorri. Aðspurður segist hann gera ráð fyrir að ræða þurfi við fleiri vitni vegna málsins sem gert verði væntanlega í næstu viku. Snorri segir ennfremur aðspurður að lögreglan telji að umrædd starfsemi hafi verið bundin við höfuðborgarsvæðið.

Frétt mbl.is: Í gæsluvarðhald til 6. desember

Þeir sem grunaðir eru um að standa á bak við starfsemina eru Íslendingar að sögn Snorra. Komið hafi fram að annar hinna handteknu sé af erlendu bergi brotinn en hann sé hins vegar íslenskur ríkisborgari. Spurður um kaupendur segir Snorri að ætlunin sé að ljúka fyrst þeim hluta rannsóknarinnar sem snúi að sakborningum, vitnum og þeim einstaklingum sem lögreglan telji að hafi verið gerðir út í vændi hér á landi. 

„Síðan er ætlunin að snúa okkur að öðrum þáttum og þar á meðal þeim hluta þar sem talið er að kaupendur hafi keypt sér vændisþjónustu,“ segir Snorri. Spurður um tengsl við skipulega glæpastarfsemi segir hann það eitt sem sé alltaf skoðað í tengslum við rannsókn á vændi. „Þetta er bara eitt af því sem við erum að skoða. Það er eitthvað sem við þurfum að útiloka og það er meðal annars tilgangur þessarar yfirheyrslna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert