Gullaldarliðs Akurnesinga verði minnst

Núverandi og fyrrverandi leikmenn ÍA í knattspyrnu.
Núverandi og fyrrverandi leikmenn ÍA í knattspyrnu. mbl.is/Golli

Bæjarráð Akranes hefur falið menningar- og safnanefnd bæjarins til úrvinnslu hugmyndir Gunnars Sigurðssonar um það hvernig bærinn geti minnst frumkvöðla íþróttalífsins á Akranesi.

Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi, var um áratuga skeið í forystu fyrir knattspyrnuhreyfinguna á Akranesi. Hugmyndir sínar reifaði Gunnar á vel heppnuðu og fjölsóttu málþingi sem Knattspyrnufélag ÍA stóð fyrir á dögunum um áhrif knattspyrnunnar á Akranesi á bæinn.

Í ræðu sinni sagði Gunnar að eftir að síðustu liðsmenn fyrsta Íslandsmeistaraliðs ÍA frá árinu 1951 féllu frá fyrr á þessu ári væri ekki úr vegi að velta fyrir sér hvaða áhrif þeir félagar höfðu á mannlíf á Akranesi og raun um allt land. „Eins og flestir vita varð liðið það fyrsta utan höfuðborgarinnar sem hampaði þessum eftirsótta titli og margir slíkir titlar fylgdu í kjölfarið. Því voru þeir félagar með réttu nefndir Gullaldarlið ÍA. Árangur Ríkharðs Jónssonar og félaga lyfti Grettistaki í mannlífinu á Skaganum,“ sagði Gunnar.

Hann sagði ennfremur að Gullaldarlið ÍA hefði ekki aðeins markað djúp spor á Akranesi. „Það sannaði fyrir íbúum landsbyggðarinnar að samstaða í smærri samfélögum getur skapað stóra sigra. Æ síðan eiga ÍA og Akranes stóran sess í hugum mjög margra landsmanna.“

Tillögur Gunnars voru í þremur liðum. Að komið verði upp brjóstmynd af Ríkharði Jónssyni á íþróttasvæðinu á Akranesi. Að komið verði upp mynd af Guðmundi Sveinbjörnssyni ásamt æviágripi í hátíðarsal ÍA, en Guðmundur var helsti forystumaður íþrótta á Akranesi upp úr miðri síðustu öld. Og loks að endurnýjuð verði myndasýning sem komið var upp í Akraneshöllinni í tengslum við Kynslóðaleikana 2008. Myndasýningin verði unga fólkinu hvatning.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert