Íhuga mál gegn borginni

Svona mun Landssímareitur ásamt Víkurgarði líta út.
Svona mun Landssímareitur ásamt Víkurgarði líta út. Tölvumynd/THG Arkitektar

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í gær deiliskipulagstillögu um Landsímareit við Austurvöll sem heimilar hótelbyggingu á reitnum. Málið fer til fullnaðarafgreiðslu á borgarstjórnarfundi 5. desember.

Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum meirihluta gegn atkvæði Kjartans Magnússonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokks. Halldór Halldórsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, sat hjá við afgreiðslu málsins.

Kjartan og Halldór lögðu fram á fundinum tillögu þess efnis að deiliskipulagstillögunni yrði frestað þar til niðurstöður fornleifarannsóknar á reitnum lægju fyrir og svör hefðu fengist við fyrirspurn frá síðasta borgarráðsfundi. Þar var óskað eftir áliti borgarlögmanns á því hvaða lagaheimildir lægju til grundvallar deiliskipulagi.

Sú tillaga var felld með fimm atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks. Í fundargerð á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að í aðdraganda fornleifaruppgraftar á svæðinu hafi í samstarfi við Minjastofnun verið lagt upp með þá sýn að ef órofinn kirkjugarður kæmi í ljós yrði framkvæmdum hætt. Þá segir að svo hafi ekki reynst vera heldur hafi komið í ljós að margra áratuga jarðrask hafi þegar valdið miklu tjóni á þeim minjum sem á svæðinu voru.

Varðmenn Víkurgarðs kynntu sjónarmið sín um varðveislu Víkurkirkjugarðs á fundinum og var Helgi Þorláksson einn fulltrúa þeirra. Helgi segir við Morgunblaðið að hann hafi talað um að mörkin á hinum gamla kirkjugarði Víkurkirkju séu mun austar en miðað hafi verið við í umsögn frá skipulagsfulltrúa og um þann hluta gildi lög um kirkjugarða frá 1993 og eldri. Að sögn Helga íhuga Varðmenn Víkurgarðs mál gagnvart borginni og hefur það verið í athugun nokkuð lengi. „Við ætlum að sjá hver niðurstaðan er fyrst af þessu máli í kerfinu,“ segir Helgi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert