„Kolófært og slæmt skyggni“

Hríðarveður er á Akureyri og búið að kyngja niður miklum …
Hríðarveður er á Akureyri og búið að kyngja niður miklum snjó. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Björgunarsveitir voru ræstar út á sjöunda tímanum í morgun til að aðstoða bíl sem er fastur í nágrenni Þelamerkur í Hörgársveit. Þá fundu björgunarsveitir um sexleytið ferðalanga sem höfðu fest bíl sinn í Ljósavatnsskarði í nótt á leiðinni milli Akureyrar og Húsavíkur.

Einnig hefur verið nokkuð um aðstoð á Ólafsfjarðarvegi, en lokað er um Ólafsfjarðarmúla, Víkurskarð og Hófaskarð. Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru einnig lokuð. 

„Það er mjög blint hér norðan við bæ,“ segir Aðalsteinn Júlíusson, starfandi aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri. „Snjórinn nær upp á húdd á björgunarsveitarbílnum sem er á leið í Hörgársveit og það er kolófært og slæmt skyggni.“

Vegir ruddir á Akureyri í morgunsárið.
Vegir ruddir á Akureyri í morgunsárið. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lítið er enn byrjað að ryðja og eru vegir fyrir utan Akureyri mikið til ófærir. Aðalsteinn kveðst eiga von á að skólahaldi í nágrenni Akureyrar verði aflýst í dag og hvatti fólk til að kynna sér málin áður en haldið er af stað. Greint var frá því í fréttum RÚV klukkan sjö að skólahald félli niður á Akureyri og fjölda annarra skóla í Eyjafirði.

Aðalsteinn segist enn fremur eiga von á að fleiri vegum fyrir norðan verði lokað með morgninum vegna snjóflóðahættu. „Það er búið að kyngja niður það miklum snjó,“ segir hann og kveður varla sjást milli húsa meðan á samtalinu við mbl.is stendur. 

Enn lítur út fyrir vonskuveður í dag um stóran hluta landsins að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Auk ofangreindra leiða fyrir norðan sem eru lokaðar þá eru Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði einnig lokaðar. Holtavörðuheiði er enn lokuð og á Vestfjörðum er vegur lokaður um Klettsháls og um Súðavíkurhlíð. Fjarðarheiði er lokuð.

Akureyringar þurftu að skafa af bílum sínum í morgun.
Akureyringar þurftu að skafa af bílum sínum í morgun. mbl.is/Þorgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert