Kom blóðugur inn í íbúðina

mbl.is

Karlmaður á fimmtugsaldri var dæmdur í þriggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi á þriðjudaginn í Héraðsdómi Vesturlands og til greiðslu miskabóta fyrir húsbrot, líkamsárás og fyrir að hafa „sýnt af sér ógnandi og vanvirðandi háttsemi gagnvart tveimur börnum húsráðenda og valda þeim mikilli hræðslu og andlegu áfalli“.

Maðurinn hafði átt í útistöðum við fólkið sem býr í íbúð fyrir ofan hann og hugðist að eigin sögn fara upp til þeirra og friðmælast. Ræddi hann við konuna sem bjó þar, sem benti honum á að útistöðurnar væru ekki að þeirra frumkvæði og að best væri að ræða svona mál þegar fólk væri ekki undir áhrifum áfengis og vísaði þar til ástands mannsins.

Konan bar fyrir dómi að við það hefði maðurinn orðið mjög reiður og að lokum farið niður í eigin íbúð. Skömmu síðar hafi maðurinn barið á glerið á útidyrahurð íbúðarinnar og loks brotið það og farið inn í íbúðina. Hönd hans hafi öll verið blóðug. Börnin hennar hafi orðið mjög hrædd þegar hann hefði brotist inn í íbúðina og síðan gengið í átt til þeirra.

Konan hefði þá kallað á eiginmann sinn sem hafi verið að gera við bifreið við næsta hús. Eiginmaðurinn bar að hafa spurt manninn hvað hann væri að gera í íbúðinni og tekið í öxl hans. Sá hafi þá ráðist á hann og meðal annars lamið hann í andlitið. Konan hringdi á lögregluna og áður en hún kom á vettvang flúði hinn sakfelldi út.

Við þetta slettist blóð víða um íbúðina og stigaganginn. Maðurinn sagði í skýrslutöku hjá lögreglunni að hann hefði bankað hjá fólkinu og eiginmaðurinn hefði opnað dyrnar en síðan skellt hurðinni á hann. Við það hafi hann rekið höndina í glerið í henni. Fyrir dómi sagðist hann hins vegar ekkert muna frá því að hann fór upp til þeirra.

Við ákvörðun dómsins var horft til þess að maðurinn á að baki sakaferil og meðal annars ofbeldisdóma. Þá braut hann skilorð. Ekki voru því taldar forsendur fyrir því að skilorðsbinda dóminn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert