Póstnúmerum breytt um mánaðamótin

Ljósmynd/Pósturinn/Hörður Ásbjörnsson

Pósturinn mun gera nokkrar breytingar á póstnúmerum landsins frá og með næstu mánaðamótum.

Sérstakt póstnúmer verður tekið upp á svæðum í dreifbýli sem áður féllu undir sama póstnúmer og næsti þéttbýliskjarni. Hægt verður að þekkja flest nýju póstnúmerin á því að síðasta talan í þeim hækkar um einn, að því er kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.

Póstnúmerið 690 Vopnafjörður mun til að mynda áfram gilda fyrir póst sem sendur er til fólks og fyrirtækja í þéttbýlishluta sveitarfélagsins en dreifbýli við Vopnafjörð fær póstnúmerið 691.

Annað dæmi um breytingar er póstnúmerið 116 Reykjavík, öðru nafni Kjalarnes. Það náði til allra sveitabæja frá Esjurótum út í Tíðaskarð sem og yfir þéttbýlið á Kjalarnesi. Eftir breytinguna verður dreifbýlið á svæðinu með póstnúmerið 162 Reykjavík en þéttbýlið með 116 Reykjavík eins og áður.

Ásbrú, sem er á gamla varnarsvæðinu, fær nú sitt eigið póstnúmer sem verður 262 Reykjanesbær.

Þá verður Keflavíkurflugvöllur héðan í frá með sína eigin áritun, eða 235 Keflavíkurflugvöllur. 

„Nýju póstnúmerin ættu ekki að hafa nein bein áhrif á fólk eða starfsemi fyrirtækja og stofnana. Hugsunin með þessum breytingum er að láta póstnúmerin afmarka betur þéttbýli frá dreifbýli og einfalda þannig alla flokkun og dreifingu pósts. Allt hjálpar þetta okkur að koma pósti hratt og vel til skila,” segir Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins, í tilkynningunni.

Breytingarnar munu ekki hafa áhrif á dreifingu pósts og mun póstur berast til viðtakenda jafnvel þótt eldra póstnúmer sé ritað við heimilisfang. Íbúar á svæðum sem breytingarnar taka til þurfa ekki að uppfæra opinberar heimilisfangsskráningar þar sem Pósturinn mun tilkynna um breytingarnar beint til Þjóðskrár. Póstnúmeraþekja fyrir landið er aðgengileg á postur.is/postnumer en þar er hægt að sjá hnitsett landfræðileg mörk póstnúmera.

Pósturinn vekur athygli á að hægt er að koma athugasemdum og spurningum varðandi nýju póstnúmerin á framfæri í gegnum netfangið postnumer@postur.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert