Segir farið í manninn en ekki boltann

Bragi Guðbrands­son, for­stjóri Barna­vernd­ar­stofu.
Bragi Guðbrands­son, for­stjóri Barna­vernd­ar­stofu. mbl.is/Golli

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, tengir ásakanir barnaverndar á höfuðborgarsvæðinu við hugsanlega áminningu og segir að það sé farið í manninn en ekki boltann.

RÚV greindi frá þessu en áður hafði verið fjallað um fjölmargar kvartanir í garð Braga. Hild­ur Jakobína Gísla­dótt­ir, fyrr­ver­andi fé­lags­mála­stjóri á Strönd­um, lýsti því á Facebook-síðu sinni að hún hafi hrökklast úr starfi eftir að Bragi beitti hana ofbeldi. Er það ekki eina til­vikið þar sem kvartað er yfir fram­komu hans í starfi. 

Barna­vernd­ar­nefnd­ir höfuðborg­ar­svæðis­ins hafa sent fjöl­marg­ar kvart­an­ir um fram­komu for­stjóra Barna­vernd­ar­stofu, Braga Guðbrands­son­ar, sem og fram­komu stofn­un­ar­inn­ar Barna­vernd­ar­stofu í garð þeirra til fé­lags­málaráðuneyt­is­ins.

„Barnaverndarstofa hefur haft til skoðunar að áminna nefndina og ég lít nú eiginlega á þessar athugasemdir dálítið í [því] ljósi, þó það sé nú ömurlegt að þurfa að segja það,“ sagði Bragi við RÚV en kvaðst ekki geta tjáð sig um hvaða mál væri að ræða.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði fyrr í dag að málið færi í formlegan farveg innan ráðuneytisins. „Það hef­ur sinn fram­gang og mik­il­vægt að tekið sé á mál­inu af al­vöru og unnið eins hratt og kost­ur er fyr­ir alla,“ seg­ir Þor­steinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert