Tékklistar og hagnýt húsráð

Hreingerningardrottningin og Snapchat-stjarnan Sólrún Diego hér með Birni Braga sem …
Hreingerningardrottningin og Snapchat-stjarnan Sólrún Diego hér með Birni Braga sem aðstoðaði hana við útgáfu bókarinnar Heima. Mynd/ Magasínið

Sólrún Diego hefur notið mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum og á netinu þar sem hún hefur fjallað um þrif og hagnýt húsráð á skemmtilegan og nýstárlegan hátt. Heima er fyrsta bók Sólrúnar og er hún uppfull af gagnlegum ráðum sem einfalt er að tileinka sér. Hún mætti í Magasínið á K100 ásamt Birni Braga sem aðstoðar við útgáfu bókarinnar. 

Flutti að heiman og áhuginn á þrifum jókst

Björn Bragi segir í viðtalinu að hann hafi sannarlega tileinkað sér nýjar aðferðir í þrifstílnum eftir samstarfið við Sólrúnu. Þegar hann er spurður út í samstarfið og upphafið að útgáfu bókarinnar segist hann hafa hringt í Sólrúnu, sem þegar var orðin vinsæl á Snapchatinu með hreingerningarþrif. „Sólrún sagði mér reyndar seinna að hún hafi haldið að ég væri að fá leyfi til að gera grín að sér í Mið-Íslandi,“ segir Björn Bragi á léttum nótum og er þar að vísa til uppistandshópsins Mið-Ísland sem hann tilheyrir. 

En hvaðan skyldi áhuginn á þrifunum hafa komið hjá Sólrúnu. „Ég held að þetta sé svolítið í uppeldinu hjá mér. Ég er alin upp við að hafa hreint í kringum mig og ólst upp við að hafa mjög fallegt og hreint heimili. Svo þegar maður fer að búa sjálfur þá fór ég að hafa áhuga á að hafa mitt heimili hreint og fór að finna mína leiðir og hvernig ég gæti haft mitt heimili eins og mér líkar best. Kannski var þessi áhugi alltaf til staðar.“

Í bókinni tekur hún fyrir helstu þætti heimilisins og kennir skilvirkar aðferðir til að halda því hreinu og fallegu án mikillar fyrirhafnar. Bókin er hugsuð sem uppflettirit og í henni eru tékklistar.

Edik- og matarsódabrandarar mögulegir 

Sólrún gerir sér fulla grein fyrir því að mögulega rati þrifáhuginn á svið sem brandari hjá Mið-Ísland hópnum og hefur hún ekkert nema gaman af því. „Við erum einmitt að fara af stað [með sýningarröð] og ég er bara með þrifpælingar og ég á eftir að fara upp á svið og tala um edik og matarsóda og einhverja bletti,“ bætir Björn Bragi við í lok viðtals.  

Hlusta má á viðtalið í heild hér að neðan en þar er komið inn á uppsetningu bókarinnar og þáttastjórnendur fengu nokkur góð ráð hjá Sólrúnu í beinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert