Textar Cohens henta kirkjum

Keith Reed, kórstjóri í Ástjarnarkirkju, og Arnar Jónsson leikari undirbúa …
Keith Reed, kórstjóri í Ástjarnarkirkju, og Arnar Jónsson leikari undirbúa sig fyrir Cohen-messu í Ástjarnarkirkju þar sem kórinn ásamt Keith og hljómsveit flytur lög Cohens. Arnar kynnir innihald laganna í messunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég heillaðist af boðskapnum í lögum Leonards Cohens fyrir 10 árum. Cohen dó fyrir ári og mér fannst tilvalið að heiðra tónlist hans og textasmíð í sérstakri Cohen-messu,“ segir Keith Reed, starfandi tónlistarstjóri Ástjarnarkirkju fram á næsta vor

Cohen-messan verður haldin í Ástjarnarkirkju á Völlunum í Hafnarfirði á sunnudag kl. 17.

Til stóð að Keith og Greta Salóme flyttu lög Cohens ásamt kór kirkjunnar og hljómsveit. Greta forfallaðist og mun Keith því syngja öll lögin með kórnum. Lögin verða öll sungin á ensku. Þorgils Hlynur Þorbergsson sá um að þýða túlkun Keiths á textum Cohens og Arnar Jónsson leikari mun sjá um að koma þeim til skila á íslensku.

Endurspegla leit mannsins

„Lög Cohens og ljóð hafa haft áhrif á líf mitt síðastliðin 10 ár. Það er svo mikil andleg speki og dýpt í textum hans. Þeir endurspegla leit mannsins að ást í samböndum,“ segir Keith og bætir við að Cohen hafi verið brotin persóna og hann túlki sannleikann sem hann hafi upplifað.

„Það á vel við að spila tónlist Cohens í kirkju því þangað kemur fólk sem er að leita að dýpt og sannleika. Cohen samdi um togstreitu í samböndum, leitina að sjálfum sér og þörfina fyrir að verða heill. Hann fjallaði líka um það hversu mikilvægt það væri að finna og viðurkenna eigin sök.“

Keith segir það áhugavert og heillandi að skoða texta Cohens út frá guðsorði og eigin reynslu.

„Síðastliðin tíu ár hef ég getað samsamað mig ljóðum Cohens. Þau breyttust eftir því sem hann varð eldri. Í ljóðum sínum var hann að fást við lífið sjálft; samband sitt við konur eða foreldra, fréttir líðandi stundar og hvaða afstöðu hann ætti að taka til samfélagsmála,“ segir Keith og bætir við að ljóð Cohens hafi hjálpað sér persónulega að takast á við ýmsar spurningar og skoða hvaða mann hann sjálfur hefði að geyma.

Fyrir messu mun félag eldri borgara í Ástjarnarkirkju, í samvinnu við kór kirkjunnar, bjóða upp á vöfflur og taka á móti frjálsum framlögum til styrktar tónlistarsjóði Ástjarnarkirkju. Arnór Bjarki Blomsterberg æskulýðsfulltrúi mun leiða Cohen-messuna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert