Þéttur éljagangur í kvöld

Búast má við þéttum éljagangi og skafrenningi í kvöld og …
Búast má við þéttum éljagangi og skafrenningi í kvöld og nótt mbl.is/Styrmir Kári

„Veðrið nær hámarki núna næstu eina til tvær klukkustundirnar og verður þannig í kvöld og fram á nóttina,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hann segir að veðrið gangi smám saman niður á morgun.

Nokkuð hvasst er nú á Austurlandi. Þar er meðalvindur á flestum stöðum á bilinu 18-30 metrar á sekúndu. Hviður í Hamarsfirði hafa í dag farið upp í 60 metra á sekúndu en veðurstöðin sker sig nokkuð úr. Teitur segir að stöðin sé á mjög slæmum stað upp á snarpar vindhviður að gera.

Þéttur éljagangur fylgir veðrinu í kvöld og fram á nótt. Fyrst dregur úr úrkomunni á Norðvesturlandi í kvöld en svo á Norðausturlandi í fyrramálið.

Teitur segir að það eina sem sé óvenjulegt við norðanáttina sem verið hefur ríkjandi á landinu síðustu daga sé hversu langvinn hún hefur verið.

Hann segir að í næstu viku sé útlit fyrir ágætis veður. Froststilla verði á landinu á mánudag og þriðjudag en svo hlýni nokkuð, smám saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert